Grafið ær-fille er gott að eiga um jólin

Matgæðingarnir Vignir, Áslaug og Vigdís Kolka.
Matgæðingarnir Vignir, Áslaug og Vigdís Kolka.

„Um jólin er gaman að bjóða upp á eitthvað sem er alla jafna ekki á boðstólum, brjóta upp hið daglega mynstur í mat og drykk, gott dæmi er maltið og appelsínið sem við blöndum saman um jólin en færri gera það í annan tíma þó svo hvort tveggja sé auðvitað til staðar allt árið um kring. Það er t.d. alveg gráupplagt að versla sér góðan slatta af ær-fille (hryggvöðva) og grafa það. Þá er ekki átt við í kartöflugarðinum, heldur grafa það í salti, kryddum og í rauninni hverju því sem hugurinn og ímyndunaraflið býður hverjum og einum. Eftirfarandi er gott dæmi um grafið ær-fille sem þykir nokkuð gott á okkar heimili og er afar einfalt í framkvæmd,“ sögðu Vignir Kjartansson og Áslaug Helga Jóhannsdóttir á Sauðárkróki sem voru matgæðingar vikunnar í 48. tbl. Feykis árið 2016. 

Grafið ær-fille
ær-fille
gróft salt

Kryddblanda:
1 hluti þriðja kryddið
1 hluti rósmarín
1 hluti estragon
1 hluti sinnepsfræ
1 hluti sítrónupipar
1 hluti basil
1 hluti oregano
2 hlutar sykur
3 hlutar dill
1½ hluti heill rósapipar

Sósa:
sýrður rjómi
majónes
hunang
dill
Dijon sinnep
smá svartur pipar

Meðlæti:
Ristað brauð eða snittubrauð penslað með basilolíu
gul melóna

Aðferð:
Kafsaltað með grófu salti í eldfast mót t.d. Plastfilma sett yfir og geymt í ísskáp í tvo tíma.
Svo er útbúin kryddblanda, ekki gleyma að grípa með sér eins og einn jólabjór úr ísskápnum og dreypa á, þetta er tveggja tíma bið! Best að halda áfram með kryddblönduna. Blandið kryddunum saman af kostgæfni.
Að tveimur tímum liðnum er ketið tekið úr ísskápnum, allt saltið skafið af, vel og vandlega, ekkert hálfkák. Þarna er við hæfi að kæla sig niður með einum litlum jólabjór, en bara litlu, enga frekju. Nú er komið að því að maka kjötið allt saman með kryddblöndunni, það þarf að passa að allt kjöt sé undir kryddi svo þetta fari allt fallega. Það er best að pakka svo hverjum bita í plastfilmu, og svona er þetta geymt í ísskáp í tvo sólarhringa.
Að tveimur sólarhringum liðnum er ketið tekið úr ísskápnum, það er algjörlega frjálst val um hvað ber að gera næst, það má skafa allt kryddið af, eða bara leyfa því að vera. Því næst er ketið fryst. Nú er ekki úr vegi að fá sér einn þeldökkan jólabjór af stærstu tegund og ekki skemmir fyrir að hafa með hið dásamlega jóla-ákavíti sem danskurinn hefur gefið okkur af miskunn sinni og náð, og er að mínu mati eitt það skásta sem þeir dönsku hafa lagt til veraldarinnar.
Best er að skera ketið hálffrosið, þá er auðveldara að ná þunnum sneiðum. Með þessu er afbragð að hafa ristað brauð, og það má hræra saman í sósuna hér að ofan og eða hafa með þessu sýrðan rjóma og hindberjasultu. Svo er líka ágætt að hafa með þessa gula melónu. Ef á að hafa þetta alveg rosalega fínt er alveg upplagt að skera snittubrauð, pensla það með fínni olíu, basílolíu t.d. og skutla brauðinu í ofninn eða á grillið í smástund, setja svo fínskornar sneiðarnar ofan á brauðið, þunna sneið af gulri melónu og svo passlegt magn af sósu.

Verði ykkur að góðu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir