Grillaður lax og rabarbarakaka

Að þessu sinni ætla þau Sigfús Ingi Sigfússon og Laufey Leifsdóttir að deila með lesendum uppskriftum sem fljótlegt er að töfra fram. Uppskriftina að laxinum má finna í ýmsum útfærslum á Netinu en rabarbarakakan kemur úr bókinni Matarlyst, segir Sigfús.

Fljótlegur kvöldverður.

Aðalréttur:

Grillaður lax

  • 1 stórt laxaflak
  • olía
  • sítrónusafi úr hálfri til einni sítrónu
  • mangóchutney
  • kasjúhnetur

Setjið laxinn á álpappír. Kreistið sítrónusafa yfir laxinn og stráið salti og pipar yfir. Þar ofan á fer svo gott lag af mangóchutney og kasjúhnetur. Grillið í u.þ.b. 15–20 mínútur, allt eftir stærð flaksins. Með laxinum er upplagt að bera fram kúskús eða nýuppteknar kartöflur og gott salat. Ef ætlunin er að hafa sósu með má nota tzatziki-sósu en uppskriftina að henni má finna aftan á umbúðunum á grískri jógúrt frá MS.

Eftirréttur:
Rabarbarakaka með rjóma eða ís

  • 400 g rabarbari
  • ½ dl hveiti
  • 2 egg
  • 2½ dl sykur
  • 1¾ dl hveiti
  • 1½ dl púðursykur
  • 50 g smjör

Hitið ofninn í 200°C. Þvoið rabarbara og skerið í bita ofan í smurt eldfast form. Blandið saman ½ dl af hveiti, eggjunum og sykri og setjið saman við rabarbarann. Myljið saman hveiti, púðursykur og smjör og dreifið yfir. Bakið í 45 mínútur að lágmarki, eða þangað til kakan er byrjuð að dökkna að ofan.

Berið kökuna fram heita með þeyttum rjóma eða vanilluís.

Verði ykkur að góðu.

(Áður birt í Feyki 2010)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir