Hægeldað lambalæri og hindberjadesert

Matgæðingarnir Guðrún Helga og Hörður. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Guðrún Helga og Hörður. Aðsend mynd.

Matgæðingar Feykis í 23. tbl. Feykis árið 2017 voru þau Guðrún Helga Marteinsdóttir hjúkrunarfræðingur og Hörður Gylfason sem er menntaður húsasmiður en starfar hjá KVH í pakkhúsdeild, auk þess að vera sjúkraflutningamaður. Þau eru búsett á Hvammstanga ásamt tveimur börnum sínum, þeim Helga og Bellu, sem og  hundi og ketti. Þau ætla buðu lesendum upp á tvo rétti, aðalrétt og eftirrétt. „Lambakjöt er í miklu uppáhaldi hjá okkur, þvi kom ekkert annað til greina en að velja einhvern af okkar uppáhalds lambakjötsréttum. Eftirréttinn  notum við stundum við hátiðleg tilefni en börnin okkar elska hindber.  Þetta er uppskrift sem áskotnaðist okkur fyrir töluverðu síðan,“ sögðu matgæðingarnir Guðrún Helga og Hörður. 

AÐALRÉTTUR
Hægeldað lambalæri með rótargrænmeti

Setjið botnfylli af vatni i ofnpott. Þvi næst takið þið kartöflur, bæði sætar og venjulegar, og skerið i bita ásamt tveimur rauðlaukum og nokkrum  brytjuðum gulrótum (og þess vegna rófum lika ef vill). Lambalærið er þvi næst  lagt yfir brytjaða grænmetið og kryddað eftir smekk með Season all og rósmarín. Setjið lambalærið inn í 100° C heitan ofn og eldið i 6 klst.
Síðasta hálftímann er gott að hækka hitann i 200°C og baka þá bara lærið en vera búinn að fjarlægja  grænmetið út pottinum áður. Einnig má færa lærið úr potti yfir í eldfast mót og klára lærið síðasta hálftímann í eldföstu móti.

Sósa með lambalærinu:

500 ml vatn, sett í pott
2 nautateningar
1 kjúklingateningur
1 msk bláberjasulta
brúnt Maizenamjöl til að þykkja með
smá rjómasletta í lokin

Annað meðlæti með lambalærinu fer eftir smekk. 

EFTIRRÉTTUR
Hindberjadesert

2 dósir Philadelpia rjómaostur (400 g)
1 dós grísk jógúrt (350 ml)
1 dl rjómi
1 vanillustöng, klofin og fræin skafin úr
2 tsk vanillusykur
½ dl flórsykur
300 g Digestive kex
300 g frosin hindber, afþýdd
1½ msk sykur 
hindber og bláber til skreytingar

Aðferð:
Rjómaostur, grísk jógúrt og rjómi er þeytt saman ásamt fræjunum úr vanillustönginni, vanillusykri, flórsykri og 100 grömmum af hindberjunum þar til blandan verður kremkennd. Digestive kexið er mulið smátt. Afgangurinn af hindberjunum (200 grömm) er maukaður vel með gaffli og sykrinum bætt út í. Ef sósan verður mjög þykk er hægt að þynna hana með örlitlu vatni. Því næst er öllum hráefnunum blandað í sex skálar – einnig er hægt að setja allt í eina stóra skál. Best er að byrja á því að dreifa hluta af mulda kexinu í botinn, þá rjómaostablöndunni og loks hindberjasósunni. Þetta er endurtekið um það bil tvisvar eða þar til hráefnið er búið. Að lokum er skreytt með berjum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir