Nokkrar góðar með keilu

Eflaust eru einhverjir sem reka upp stór augu og hugsa… hvað er keila? En þetta er fisktegund sem maður heyrir ekki oft um og því um að gera að koma með nokkrar girnilegar uppskriftir sem innihalda þennan fisk. Keila hefur, því miður, orðið undir í samkeppninni við þorskinn og ýsuna en er mjög góður fiskur og auðvelt að nálgast hann í fiskbúðum. Keilan er löng, með sívalan bol og étur helst krabbadýr og annan smáfisk. Stærsta keilan sem veiðst hefur við Íslandsstrendur var 120 cm löng en fullvaxin er hún oftast um 40-75 cm og um 0,5-3 kg og getur orðið 40 ára gömul. (upplýsingar teknar af matis.is og audlindin.is)

 

RÉTTUR 1
Keila með Camembert

    1 kg keila
    1 tsk. mulinn rósapipar
    2 tsk. jurtasalt
    2 tsk. Eðalkrydd frá Pottagöldrum
    1 Camembert
    olía eða smjör til steikingar

Aðferð: Fiskflökin eru skorin í 5 cm bita og krydduð með rósapipar, jurtasalti (Herbamare) og Eðalkryddi. Stykkin eru steikt í smjöri eða olíu beggja vegna og sett í eldfast mót.

Sósa:
    1 stór laukur – saxað smátt
    1 rauð paprika – saxað smátt
    olía
    1 peli kaffirjómi
    1 dós humarostur
    1 teningur grænmetiskraftur
    svartur pipar og rósapipar
    2-3 msk. hvítvín

Aðferð: Laukurinn og paprikan steikt í olíu, passa að láta þetta ekki brúnast. Kaffirjóma og humarosturi bætt út í ásamt kryddinu. Hvítvínið sett síðast í. Smakkið til. Sósan fer síðan yfir fiskinn. Camembert osturinn skorinn í 1 cm þykkar sneiðar og þeim raðað ofan á hvern fiskbita. Sett inn í 200°C heitan ofn og látið vera þar til osturinn er orðinn bráðinn. Uppskrift og mynd tekin af audlind.is

RÉTTUR 2
Keila í rjóma- sinnepssósu

    700 g keiluflök
    30 g laukur
    1 stk. hvítlauksgeiri
    30 g gulrót
    30 g paprika
    30 g blaðlaukur
    100 g hveiti
     ½ msk. karrí
    1 dl fiskisoð
    hvítvín (má sleppa)
    salt
    2–3 msk. sætt sinnep
    1 msk. dijon sinnep
    2 dl rjómi

Aðferð: Afhýðið lauk og hvítlauk og skerið laukinn í strimla en saxið hvítlaukinn. Skerið gulrót, papriku og blaðlauk í strimla. Skerið keiluflökin í strimla. Steikið grænmetið snöggt á pönnu. Veltið keilustrimlunum upp úr hveiti og setjið á pönnuna með grænmetinu. Kryddið með karríi og steikið áfram. Bæti fiskisoði og hvítvíni á pönnuna, síðan sætu sinnepi og dijon sinnepi og síðast rjómanum. Sjóðið við vægan hita þar til sósan þykknar og bragðbætið með salti. Réttinn er gott að bera fram með hrísgrjónum og nýju brauði. Uppskrift tekin af mbl.is (Hagkaup)

RÉTTUR 3
Grilluð keila í creola marineringu

    1 kg, roð- og beinlaus keila 
    ½ tsk. karríduft
    ½ tsk paprikuduft
    ½ tsk hvítlauksduft
    ¼ tsk þurrkað chili
    3 dl. Filippo Berio Light ólífuolía
    salt

Aðferð: Blandið saman öllum þurrefnunum og hrærið, setjið síðan olíuna út í. Skerið keiluna í hæfilega stór stykki, u.þ.b. 200-250 g, og leggið hana í marineringuna. Látið hana liggja í u.þ.b. 10 mínútur í marineringunni, á meðan er gott að hita grillið mjög vel. Hafið grillið í botni meðan grillað er. Þegar búið er að setja keiluna á grillið þá á ekki að hreyfa við henni í nokkrar mínútur á meðan fiskurinn er að brenna sig frá grillinu. Grillið í u.þ.b. 5 mínútur á hvorri hlið. Gott er að hafa með þessu bökunarkartöflur skornar í tvennt og grillaðar á sárinu, ásamt fersku salati. Uppskrift tekin af kokkarnir.is

Verði ykkur að góðu

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir