Ofnbakaður fiskréttur og krukkugotterí

Það er alltof sjaldan sem við borðum fisk á mínu heimili og ákvað ég því að koma með einn mjög góðan sem allir borða, allavega í mínum húsum. Þá fann ég einn girnilegan eftirrétt sem mig langar til að prufa um helgina, nema ég skipti út namminu í Daim því mér þykir það svo agalega gott. Báðar þessar uppskriftir og myndir koma af heimasíðunni gerumdaginngirnilegan.is 

AÐALRÉTTUR
Ofnbökuð langa

    600 g langa (einnig gott að nota t.d. þorsk eða ýsu)
    ólífuolía
    250 g sveppir
    1 dl blaðlaukur, smátt saxaður
    ½ -1 dl hvítvín
    1-2 hvítlauksrif, pressað eða rifið
    200 g sólþurrkaðir tómatar, skornir í strimla
    1 hreinn Philadelphia rjómaostur
    2 dl rjómi
    1 dl parmigiano reggiano
    1-2 msk. ferskt dill, smátt skorið
    salt & pipar
    100 g spínat
    1 dl mozzarella ostur 6 dl mulið snakk)

Aðferð: Byrjið á því að skera lönguna í bita og kryddið með salti og pipar. Skerið sveppi og blaðlauk smátt og steikið upp úr ólífuolíu. Bætið hvítvíninu saman við og hrærið. Hrærið hvítlauknum, sólþurrkuðu tómötunum, rjómaostinum, rjómanum og parmigiano reggiani út í. Kryddið með fersku dilli, salti og pipar. Í lokin blandið þið spínatinu saman við og hrærið. Leggið löngubitana í eldfast mót og blandið saman við sósuna. Dreifið rifnum osti yfir. Myljið snakkið í matvinnsluvél eða setjið í lokaðan poka og rúllið yfir það með kökukefli og dreifið yfir réttinn. Bakið í 18 - 20 mínútur við 190°C eða þar til fiskurinn er eldaður í gegn. Gott að bera þetta fram með kartöflubátum eða hrísgrjónum.


EFTIRRÉTTUR
Marengs í krukku með Daim

    1 marengsbotn
    4 dl þeyttur rjómi
    ½ Daim súkkulaðipoki
    3 msk. rjómi
    smátt skorin jarðarber eftir smekk
    1-2 ástríðuávextir
    fræ úr ½ granatepli

Aðferð: Byrjið á því að bræða Daim súkkulaðið í potti ásamt 3 msk. rjóma við vægan hita og kælið. Saxið smá af súkkulaðinu áður til að skreyta með. Ef blandan er of þykk þá er gott að bæta smá rjóma saman við. Þeytið rjómann. Brjótið marengsinn í litla bita og dreifið í botninn í krukku eða glasi. Því næst setjið þið þeyttan rjóma, ber, granateplafræin, ástríðuávextina og svo hellið þið bræddu Daim súkkulaði. Þetta endurtakið þið aftur og endið svo á því að skreyta með saxaða Daim súkkulaðinu.


Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir