Pönnufiskur og pæ á eftir

Matgæðingarnir Sigurveig og Sigmar. Aðsend mynd.
Matgæðingarnir Sigurveig og Sigmar. Aðsend mynd.

Það voru þau Sigurveig Sigurðardóttir og Sigmar Guðni Valberg á Stóru-Giljá í Húnavatnshreppi sem gáfu lesendum uppskriftir í ellefta tölublaði ársins 2018. Sigurveig starfar sem íþróttakennari í Húnavallaskóla og Sigmar er rafvirki hjá Tengli en auk þess reka þau ferðaþjónustu á Stóru-Giljá. Saman eiga þau þrjú börn sem öll sækja nám við leikskólann Vallaból. „Fyrir valinu varð pönnufiskur og eplapæ, hvoru tveggja auðveldir en verulega bragðgóðir réttir,“ segja þau. 

AÐALRÉTTUR
Pönnufiskur (handa fjórum)

½ blaðlaukur
1 paprika
1½ msk. matarolía
1 dl vatn
1 dl matreiðslurjómi
100 g rjómaostur
1½ kubbur nautakjötskraftur
1 tsk. salt
1 tsk. karrí
½ tsk. pipar
½ tsk. paprikuduft
800 g ýsuflök

Aðferð:
Blaðlaukur og paprika skorin í bita og steikt í olíu á pönnu. Hellið vatninu og rjómanum á pönnuna og leysið rjómaostinn upp í vökvanum. Bætið nautakjötskraftinum út í og hrærið öllu saman. Blandið saltinu, karríinu, piparnum og paprikuduftinu saman í skál.
Hreinsið fiskinn, skerið niður í sneiðar og setjið á pönnuna ofan í sósuna og dreifið kryddblöndunni yfir. Setjið lok á pönnuna og látið suðuna koma upp og leyfið pönnunni að standa á heitri hellunni stutta stund eða þar til ýsan er soðin.
Borið fram á pönnunni með soðnum hrísgrjónum, kartöflum og snittubrauði. 

EFTIRRÉTTUR
Eplapæ

4 epli
200 g smjör
200 g sykur
200 g hveiti
suðusúkkulaði

Aðferð:
Mót smurt með smjöri. Epli skorin niður í smáa bita. Smjör, sykur og hveiti hnoðað og sett yfir eplin. Toppað með kanilsykri og smátt skornu suðusúkkulaði. Bakað á blæstri á 180°C í 45 mínútur.

Borið fram með ís.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir