Saltfiskplokkfiskur og saltfisksalat

Saltfiskplokkfiskur - MYNDIR AF VEF NÖNNU.
Saltfiskplokkfiskur - MYNDIR AF VEF NÖNNU.

Ég, Sigríður Garðarsdóttir, var að hlusta á útvarpið um daginn sem er ekki í frásögu færandi en þá var verið að tala um hvaða gamaldags mat fólki fannst bestur. Það var oftar en einu sinni nefnt fiskibollur í dós frá Ora í bæði tómatsósu og karrýsósu. Í minningunni var þetta algjört nammi og var eitt af því sem ég borðaði mjög vel af því ég var frekar matvandur krakki. 

Fyrir nokkrum árum síðan ákvað ég að prufa að bjóða mínum börnum upp á þetta og hvað haldið þið að þeim hafi fundist um þennan mat? … ógeðslegt! Þetta er nú ekki flókin matargerð þannig að ég get ekki hafa klúðrað þessu og smakkaði sjálf og ég var að sjálfsögðu fyrir vonbrigðum… ég bara skil ekki hvað mér fannst gott við þetta. En vona bara að þetta hafi verið þroskinn hjá mér. Það var eitt og annað nefnt í þessum þætti líka t.d. saltfiskur sem mér fannst svo vond lykt af og þess vegna borðaði ég hann ekki og kannski maður fari að gefa þessu séns komin yfir fertugt og farin að fá nokkur grá hár! Þessa uppskriftir fann ég á síðunni www.nannarognvaldar.com sem ég ætla að láta reyna á næst þegar ég verð með fisk í matinn.

UPPSKRIFT 1
Gratineraður saltfiskplokkfiskur  

    250 g saltfiskur
    4 meðalstórar kartöflur (eða 1 vel stór bökunarkartafla)
    nokkrar timjangreinar
    100 ml brauðmylsna (Panko eða þurrkuð)
    3 hvítlauksgeirar
    smábiti af parmesanosti (svona 25 g)
    100 ml mjólk
    75 ml ólífuolía
    100 ml rjómi (eða soð af fiskinum)
    1/2 tsk. piparkorn

Aðferð: Kveikja á ofninum og stilla á 220°C og flysja kartöflurnar, skera þær í litla bita og setja þær upp í pott til suðu. Skera tvo hvítlauksgeira í þunnar sneiðar, setja í pott ásamt ólífuolíunni og hitað þar til fer að krauma í kringum geirana en þá er potturinn tekinn af hitanum og olíunni og hvítlauknum hellt í litla skál og sett til hliðar. Setja mjólkina (100 ml) í pott ásamt 200 ml af vatni, mestöllu timjaninu og piparkornunum og hvítlauksgeiranum sem eftir er, smátt skornum. Hita að suðu og láta malla við mjög vægan hita í nokkrar mínútur. Þá er fiskurinn settur út í og hann látinn malla við mjög hægan hita í 5-6 mínútur, eða þar til fiskurinn er rétt soðinn í gegn. Þá er hann tekinn upp úr og látinn kólna ögn en svo er roðinu flett af. Kartöflurnar soðnar og vatnið hellt af þeim, fiskurinn settur út í og stappað saman, ásamt mestallri hvítlauksolíunni (skilja svolítið eftir fyrir formið) og rjómanum. – Það má líka sleppa rjómanum en nota í staðinn dálítið af mjólkurblandinu sem fiskurinn var soðinn í. Stappan smökkuð til og krydduð með aðeins meiri pipar. Eldfasta formið smurt að innan með afganginum af hvítlauksolíunni og plokkfiskurinn jafnaður í það. Parmesanostbitinn rifinn yfir, lauf af 1-2 timjangreinum sem eftir voru, blandað saman við raspið og stráð yfir. Þetta er svo sett í ofninn og bakað í u.þ.b. átta mínútur eða þar til raspið er stökkt og hefur tekið góðan lit.

UPPSKRIFT 2
Saltfisksalat með radísum og sykurbaunum  

    600 g saltfiskur
    150 g sykurbaunir
    salt
    75 g klettasalat eða salatblanda
    8 - 10 radísur
    3 msk ólífuolía
    safi úr 1/2 sítrónu
    pipar
    2 tsk. mirin (má sleppa)
    lófafylli af radísuspírum

Aðferð: Taka 600 g af saltfiski sem búið er að afvatna. Flakið skorið í stykki. Þau sett í pott með köldu og hitað að suðu. Þetta látið malla mjög rólega í 2-4 mínútur (eftir þykkt stykkjanna). Slökkt undir pottinum og fiskurinn látinn standa í 6-8 mínútur. Hann er svo tekinn upp með gataspaða og látinn kólna. Næst er tekið 150 g af sykurbaunum, skornar í tvennt, léttsaltað vatn hitað að suðu í litlum potti, baunirnar settar út í og þær látnar sjóða í tvær mínútur. Hellt í sigti og sett undir kaldan kranann. Látið renna af þeim. 8-10 radísur skornar í þunnar sneiðar, blandað saman við 75 g af klettasalati og blandað baununum saman við. Þar næst er hrist saman þrár msk. af ólífuolíu, safa úr 1/2 sítrónu, pipar, salt og 2 tsk. af mirin (það má sleppa því), og þessu hellt yfir baunirnar og salatið og blandað vel. Saltfiskurinn roðflettur, losaður sundur í flögur og blandaður gætilega saman við. Salatið sett á fat og skreytt með radísuspírum.

 Verði ykkur að góðu:)

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir