Þrjár af uppáhaldsuppskriftum fjölskyldunnar

Gígja Hrund og Helgi Svanur ásamt börnunum. Heiðar Birkir er elstur, þá Hilmar Örn og Bryndís Dögg.
Gígja Hrund og Helgi Svanur ásamt börnunum. Heiðar Birkir er elstur, þá Hilmar Örn og Bryndís Dögg.

Gígja Hrund Símonardóttir og Helgi Svanur Einarsson á Sauðárkróki voru matgæðingar í 4. tölublaði ársins 2017. 
„Heiða systir skoraði á okkur að vera næstu matgæðingar Feykis og að sjálfsögðu reynum við að standa undir því. Hér sendum við þrjár uppskriftir sem allar eru í nokkru uppáhaldi hjá fjölskyldunni. Allt eru þetta tiltölulega fljótlegar og einfaldar uppskriftir sem að okkar mati bragðast bara býsna vel,“ sögðu þau Gígja Hrund og Helgi Svanur sem tóku á móti áskorun alla leið frá Kirkjubæjarklaustri, en þar býr Heiða, systir Gígju.

„Fyrst bjóðum við upp á alveg ágætis fiskrétt sem hægt er að útfæra og breyta endalaust. Um að gera að setja bara það grænmeti sem hverjum og einum líkar best. Okkur finnst mjög gott að bæta við t.d. rauðri papriku og spergilkáli."

Ofnbakaður fiskur í paprikusósu

ýsa eða þorskur, magn eftir fjölda matargesta (600 - 800 g)
1 box paprikusmurostur (250 g)
1 box sveppir (250 g)
1 púrrulaukur
2½ dl rjómi + ½ dl mjólk (eða 3 dl matreiðslurjómi)
1 grænmetisteningur
smá cayenne pipar
(⅛ úr teskeið) Krydd lífsins frá Pottagöldrum (eða önnur krydd eftir smekk)
rifinn ostur 

Aðferð:
Hitið ofninn í 175°. Sneiðið sveppi og púrrulauk. Hitið olíu á pönnu og steikið sveppina og púrrlaukinn. Kryddið með Kryddi lífsins (eða öðrum kryddum) og hellið rjóma yfir. Hrærið smurostinum saman við í skömmtum og bætið svo grænmetisteningi út í. Leyfið sósunni að sjóða við vægan hita á meðan fiskurinn er undirbúinn.
Skolið og þerrið fiskinn og leggið í eldfast mót. Kryddið með pipar og salti og hellið síðan sósunni yfir. Setjið rifinn ost yfir og eldið í 20 mínútur, eða þar til osturinn hefur fengið fallegan lit.

„Næst er það gulrótakaka sem klikkar seint, enda uppskriftin komin frá Jóa Fel."

Gulrótakaka

200 g gulrætur
1 dl matarolía
160 g sykur
2 stk. egg
170 g hveiti
1½ tsk. matarsódi
¾ tsk. salt
¾ tsk. kanill
1 tsk. vanillusykur

Aðferð:
Rífið gulræturnar í matvinnsluvél eða skerið í litla bita. Setjið matarolíu, sykur og egg í hrærivélaskál og hrærið saman. Blandið öllum þurrefnum saman í skál og bætið í hrærivélaskálina. Hrærið deigið vel saman og blandið síðan gulrótabitum varlega saman við deigið með sleikju. Setjið deigið í smurt bökunarform og bakið við 180°C í um 35 mín. Kælið kökuna. 

Krem:
45 g smjör
90 g rjómaostur
250 g flórsykur
1 tsk. vanilludropar
1 tsk. sítrónusafi 

Bræðið smjör og setjið allt í hrærivélaskál. Hrærið saman á hægum hraða, stutta stund. Smyrjið kreminu yfir kökuna og berið fram.

„Að síðustu er uppskrift af ostasalati sem hentar einkar vel í saumaklúbbinn eða með á veisluborðið.“ 

Ostasalat á kex

1 lítil dós majones
1 lítil dós sýrður rjómi
1 lítil dós ananaskurl án safa
blá og græn vínber
rauð og græn paprika
¼ blaðlaukur
1 mexíkóostur
1 hvítlauksostur

Aðferð:
Vínberin, paprikan, blaðlaukurinn og ostarnir brytjað smátt og öllu hrært saman. Látið jafna sig í nokkrar klukkustundir í kæliskáp. Borið fram með góðu saltkexi eða snittubrauði. 

Verði ykkur að góðu!

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir