Tilbreytingar á Hafragrautnum góða

hafragrautur með hnetusmjöri - mynd tekin af himneskt.is
hafragrautur með hnetusmjöri - mynd tekin af himneskt.is

Hafragraut þekkja allir landsmenn og hefur hann verið algengur morgunmatur frá því seint á 19. öld því þá jókst innflutningur á höfrum til landsins. Vinsældir hans dvínuðu hinsvegar lítillega á 20. öldinni því þá kom á markaðinn annars konar morgunkorn sem yngri kynslóðin sótti meira í. En það sem er hægt að gera með hafragrautinn er kannski ekki hægt að gera með annað morgunkorn það er að bragðbæta hann með ýmsu góðgæti. Hér koma nokkrar útfærslur.

Hafragrautur með hnetusmjöri

Hafið þið prufað að setja skeið af hnetusmjöri út á grautinn? Hann verður saðsamari fyrir vikið og orkan endist aðeins lengur. Einnig gott að bæta við eplum, peru, banana, ber eða rúsínur.

1 dl haframjöl

2 dl vatn

½ tsk. kanill

salt af hnífsoddi

2 tsk. himneskt hnetusmjör, gróft

1-2 tsk. rúsínur (má sleppa)

uppáhalds ávöxturinn þinn (t.d. epli, pera, ber eða banani)

mjólk að eigin vali (t.d. jurtamjólk)

Aðferð: Setjið vatnið í pott og kveikið undir. Bætið höfrunum út í ásamt kanil og salti. Látið grautinn malla í 2-5 mín, eða þar til tilbúinn. Passið að hræra í annað veifið svo grauturinn brenni ekki. Setjið grautinn í fallega skál, stráið því sem hugurinn girnist yfir, ásamt vænni skeið af hnetusmjöri. Hellið smávegis jurtamjólk út á og njótið!

Mynd og uppskrift tekin af himneskt.is

Súkkulaði kröns hafragrautur með mjúkri hnetusmjörsfyllingu 

60 g malað haframjöl

25 g Plant Protein Complex frá NOW með súkkulaðibragði

1 msk chia fræ

200 g mjólk (möndulmjólk)

1 msk. kakónibbur frá Muna

70 g grísk jógúrt

1 msk. fínt hnetusmjör

1 tsk. dökkt agave síróp

2 tsk. kókosólía

30 g dökkt súkkulaði (mæli með 85% súkkulaði, sykurlaust)

Aðferð: Myljið haframjölið í blandara og setjið í skál ásamt próteini, chia fræjum, mjólk og kakónibbum. Hrærið saman þar til kekklaust og setjið í minni skál sem er hentugri til að borða upp úr, látið standa inn í ísskáp. Í aðra skál blandið saman grísku jógúrti, hnetusmjöri og agave sírópi. Setjið varlega ofan í skálina með hafragrautnum, 1 tsk. í einu, og sléttið varlega úr með bakhliðinni á skeið. Setjið inn í ísskáp. Setjið kókosolíu og dökkt súkkulaði í skál sem má fara inn í örbylgju. Bræðið saman með því að setja inn í örbylgjuofninn u.þ.b. 30 sek. í einu og hrærið vel á milli, hitið þar til bráðnað. Hellið varlega yfir jógúrt lagið og sléttið varlega úr. Setjið aftur inn í ísskáp og geymið í a.m.k. 30 mín.

Mynd og uppskrift tekin af lindaben.is

Fimm frábærar útgáfur

1/3 bolli haframjöl  

1 msk. chia-fræ

¼ grísk jógúrt

¼ – ½ bolli möndlumjólk, venjuleg mjólk eða sojamjólk

(magnið fer eftir því hversu þykkan þú vilt hafa grautinn)

Aðferð: Setjið haframjölið í krukkuna. Bætið chia fræjunum ofan á. Hellið síðan mjólkinni þar yfir.

Og að lokum er jógúrtin sett ofan á.

En svo er komið að því að bragðbæta grautinn.....

Hafragrautur með gulrótarköku

¼ bolli niðurrifnar gulrætur

1 msk. hlynsíróp

2 msk. saxaðar pekanhnetur

¼ tsk. kanill

Hellið sírópinu yfir og stráið síðan kanilnum yfir. Bætið gulrótunum við og toppið með hnetunum.

Hafragrautur með bláberjum og sítrónu

1 msk. bjáberjasulta

½ tsk. rifinn sítrónubörkur

¼ tsk. vanilludropar

¼ bolli bláber

Hellið vanilludropunum yfir og setjið síðan sultuna næst. Setjið þá bláberin ofan á og rífið að lokum sítrónubörkinn yfir.

Hafragrautur með súkkulaði og jarðarberjum

1 msk. hunang

1 tsk. kakóduft

1 msk. niðurrifið dökkt súkkulaði

¼ bolli jarðarber niðurskorin

Hellið hunanginu yfir og stráið síðan kakóinu yfir. Bætið þá jarðarberjunum við og rífið síðan súkkulaðið yfir.

Hafragrautur með bönunum og hnetum

1 msk. hlynsíróp

1 msk. mjúkt hnetusmjör

2 msk. saxaðar valhnetur

½ niðurskorinn banani

Sírópinu er hellt yfir og síðan hnetusmjörinu bætt við. Raðið þá bönunum yfir og stráið að lokum hnetum yfir.

Pina Colada hafragrautur

1 msk. hunang

1 tsk. kókosflögur

1 msk. saxaðar möndlur

¼ bolli ferskur niðurskorinn ananas

Hellið hunanginu yfir og bætið þá möndlunum við.

Þegar allt er komið í krukkurnar eru þær hristar vel og síðan settar inn í ísskáp.

Verði ykkur að góðu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir