Tortillaterta og snakkbrauðréttur

Tortillaterta. Mynd og uppskrift eru fengnar af mommur.is.
Tortillaterta. Mynd og uppskrift eru fengnar af mommur.is.

Ég, Sigríður Garðarsdóttir, var svolítið svöng þegar ég fór á stúfana með hverju Feykir ætti að mæla með í tbl 28, 2022, og það kom að sjálfsögðu eitthvað óhollt upp í höfuðið á mér og í þetta skipti langaði mig í snakk… Ætla að sjálfsögðu ekki að láta það eftir mér en kannski væri gaman að prufa þessar skemmtilegu uppskriftir sem innihalda snakk og fékk ég þær af síðunni mommur.is – mæli með að skoða síðuna þeirra, það er fullt af flottum uppskriftum hjá þeim. 

UPPSKRIFT 1
Tortillaterta með grænmeti og Doritos

    1 pakki original tortilla kökur (sex í pakka)

Fylling:
    1 stór appelsínugul paprika
    1 stór rauð paprika
    1 stór gul paprika
    10 sm blaðlaukur
    1/2 stk. rauðlaukur (lítill)
    1  1/2 gúrka (miðjan tekin úr)
    1 dós blaðlauks ídýfa
    1 dós sýrður rjómi 18 %
    1  1/2 dós salsasósa, mild
    1 poki Mozzarella ostur
    1/2 poki Doritos

Aðferð: Grænmetið saxað smátt og blandað saman í skál. Sýrðum rjóma og blaðlauk blandað saman.
Samsetning: Tortillakaka, salsasósa smurð yfir kökuna, blaðlauksblandan sett yfir, grænmeti og rifinn ostur. Þetta er endurtekið þar til síðasta kakan er sett á. Þá er afgangnum af blaðlauksblöndunni og Doritos sett ofan á.

UPPSKRIFT 2
Snakkbrauðréttur      

    1 brauð
    1/2 dós sveppasmurostur
    1/2 dós pizzusmurostur
    1/2 dós skinkumyrja
    1/2 piparostur
    1/2 líter matreiðslurjomi
    1 pakki skinka
    1 askja sveppir
    1 stk rauð paprika
    100 g frosið brokkolí

Ofan á:
    rifinn ostur
    paprikuflögur

Aðferð: Rjóminn settur í pott og smurostarnir settir út í ásamt smátt skornum piparosti. Þetta er hitað við vægan hita þar til ostarnir eru bráðnaðir. Hrært í reglulega. Sveppir skornir niður og steiktir í smá smjöri. Paprika og skinka skorin í litla bita og sett saman við og hitað örlitla stund. Þetta er sett saman við ostablönduna ásamt brokkkolíinu. Skorpan tekin af brauðinu og brauðið skorið í litla bita. Sett í eldfast mót. Ostablandan sett yfir og hún hrærð vel saman við brauðið. Rifinn ostur settur yfir. Bakað í ofni við 180°C í u.þ.b. 30 mín. eða þar til osturinn er farinn að taka smá lit. Þá er papriku flögunum dreift yfir ostinn og hitað í nokkrar mínútur. 

Myndir og uppskriftir eru fengnar af mommur.is

UPPSKRIFT 3
Radísusnakk        

    7 meðalstórar radísur
    1 msk. grænmetisolía
    1/2 tsk. hvítlaukskrydd
    salt og pipar

Aðferð: Hitið ofninn í 105°C. Þið ráðið hvort þið takið hýðið af radísunum eða ekki. Skerið radísurnar í þunnar sneiðar með mandólíni og setjið sneiðarnar í stóra skál. Blandið olíu, hvítlaukskryddi, salti og pipar saman við radísurnar og blandið þar til sneiðarnar eru huldar í olíu og kryddi. Raðið sneiðunum í einfalda röð á ofnplötu. Bakið í 60 mínútur, jafnvel fimmtán mínútur til, eða þar til flögurnar eru gylltar og stökkar. Látið kólna í 5 mín. og berið fram með ídýfu. Mynd og texti tekinn af dv.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir