Rabb-a-babb 110: Hófí Sveins

Nafn: Hólmfríður Sveinsdóttir.
Árgangur: 1972.
Fjölskylduhagir: gift Stefáni Friðrikssyni og á með honum 3 dásamleg börn; Friðrik Þór , Herjólf Hrafn og Heiðrúnu Erlu.
Búseta: Sauðárkrókur.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Ég er dóttir Svenna Siffa og Heiðrúnar Friðriks og er alin upp á Króknum.
Starf / nám: Framkvæmdastjóri rannsókna- og þróunarfyrirtækisins Iceproteins ehf. /Ph.D. í matvælaefnafræði og M.Sc. í næringarfræði.
Hvað er í deiglunni: Vinnulega eru ýmis mál í deiglunni en þeirra efst er að koma þorskpróteininu sem við hjá Iceprotein erum búin að vera að þróa á markað sem fyrst. Einnig eru rannsóknir tengdar ofurkælingarbúnaðinum í Málmey SK-1 og vinnslu á hráefni úr skipinu mjög ofarlega í huga mínum. Í prívat lífinu er einnig ýmislegt í deiglunni, eins og t.d. að ferma Herjólf Hrafn og fylgja Heiðrúnu Erlu í gegnum næsta skref í hennar verkefni.

Hvernig nemandi varstu? 
 Ég held að ég hafi verið ágætis nemandi. Pínu óþekk í restina af Gagganum en bætti það upp seinna á menntaveginum.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Appelsínugula draktin og appelsínugulu mokkasíurnar gleymast seint. Síðan fannst mér dagurinn pínu neyðarlegur, skyldi ekki almennilega allt þetta uppistand.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Eftir að vera búin að vera í sveit á Syðra-Skörðugili var ég ákveðin í að verða bóndi. Það breyttist þegar ég fór að læra efnafræði hjá Ásbirni og Steinunni í FNV (sem hét reyndar FÁS þá) og var ég harðákveðin í að verða lyfjafræðingur. Ég þurfti svo að endurskoða þessi plön þegar ég flutti til Þýskalands þar sem lyfjafræði var ekki í boði í háskólanum í bænum sem ég bjó í og ákvað ég því að prófa næringarfræði og líkaði það bara andsk... vel þannig að ég kláraði það.

Hvað hræðistu mest? 
Að eitthvað komi fyrir börnin mín.

Besti ilmurinn? Ætli það sé ekki bara ilmurinn af hafinu. Einnig finnst mér ilmur af nýslegnu grasi mjög góður.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Líklega bara það vinsælasta á þeim tíma hvað íslenska tónlist varðar eins og Ný-dönsk, Sálina og SSSól. Hvað erlenda tónlist varðar þá hlustaði ég töluvert á Big Country, U2, Queen ofl. á þessum tíma. Ég er ekki mikill sérfræðingur í tónlist og hlusta yfirleitt bara á það sem verið er að spila í útvarpinu hverju sinni.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? 
Ég ætla að vona að ég komi aldrei til með að syngja í kareókí.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Breskum sakamálaþáttum.

Besta bíómyndin? Ég hef horft á margar góðar bíómyndir og finnst erfitt að gera upp á milli þeirra. Myndir sem mér hefur þótt góðar eru t.d. Blood diamonts og Hotel Rwanda

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Engum sérstökum.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Að pússa silfrið.

Hvert 
er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Það var að raða í uppþvottavélina þannig að vatn kæmist að öllu leirtaujinu þegar vélin er troðfull en mér sýnist aðrir fjölkyldumeðlimir vera að ná því eftir fjölmargar nauðæfingar.

Hættulegasta helgarnammið? Fljótandi brauð.

Hvernig er eggið best? Þegar það er soðið í 12 mín í gufuofni – alla vegana segja stelpurnar í vinnunni það.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? 
Væri til í að vera skipulagðari en verð samt að segja að óskipulagið hefur svo oft komið sér vel þar sem hlutirnir fara stundum ekki á þann veg eins og þeir eiga að fara að ég er farin að telja þetta kost.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Óheilindi og ósanngirni.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  
Gott er að eiga góða að. Þessi málsháttur á alveg ótrúlega vel við mig.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar ég reiddist við mömmu og ákvað að flytja að heiman, ég hef líklega verið 3-4 ára. Mér hefur líklega mislíkað eitthvað og fokið í mig og tók ég ákvörðun um að flytja að heiman í bræði en dauð sá eftir því nokkrum mínútum seinna þegar ég labbaði út af lóðinni og snéri náttúrulega við. Ég þurfti að éta ofaní mig að ég væri nú alveg til í að búa aðeins lengur hjá heima.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Engin sérstök.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Ég hef gaman af því að lesa bækur sem byggðar eru á heimildum eins og bækur eftir Vilborgu Davíðsdóttur, einnig fannst mér bókin um Guðríði Símonardóttur góð sem og bækurnar sem Böðvar Guðmundsson skrifaði um Vestur-Íslendinga.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ha, fyrirgefðu ég heyrði ekki hvað þú sagðir.

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Ég myndi halda að Alexander Fleming sem uppgötvaði penisillín væri ansi hátt á þeim lista.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu... ...ég myndi fara til Nýja Sjálands. Mig hefur alltaf langað til að fara þangað og vonandi rætist það einhverntímann.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? Tölvuna, símann og þorskpróteinhylki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir