Rabb-a-babb 125: Engilráð

Nafn: Engilráð Margrét Sigurðardóttir.
Árgangur: 1941
Fjölskylduhagir: Maðurinn minn, til næstum 50 ára, er Aðalsteinn J. Maríusson. Eigum tvo syni + tengdadætur og fjögur barnabörn.
Búseta: Sauðárkrókur síðan 1975, komum frá Reykjavík.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n:  Ég fæddist í baðstofunni á Barkarstöðum í Svartárdal, dóttir hjónanna Halldóru Bjarnadóttur og Sigurðar Þorkelssonar. Ólst þar upp í miklu eftirlæti.
Starf / nám:  Stúd. MA ´61, kennarapróf ´64 / Kennsla 7 ár, annars skrifstofustörf, nú alsæll iðjuleysingi.
Hvað er í deiglunni: Meira iðjuleysi, kannski ferðalög.

Bifreið:  Subaru Impreza GL, árg. 1997. Hestöfl 115,6. Yndi mitt og eftirlæti s.l. 18 ár. Ber mig örugglega hvert þangað, sem ég þori á annað borð að keyra og rúmar ótrúlegt magn af nauðsynjavarningi, s.s. mold, þökum, skít sem og garðúrgangi.

Hvernig nemandi varstu?  Bara góður í þeim fögum, sem ég sá einhvern tilgang með að læra, s.s. tungumálum en aldeilis afleitur í stærðfræði og sögu, fannst mér ekki koma við hverjir börðust við hverja hvenær og hversvegna eða hvort a+b væri =c.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?  Fermdist ein í Bergsstaðakirkju, sat ísköld og nötrandi framan við altarið og ALLIR í kirkjunni horfðu á MIG, það var skelfilegt. Athyglissýkin kom síðar. – En nýja permanentið var æðislegt og allar gjafirnar: úrið, myndavélin, hnakkur og beisli, skartgripir o.fl. og veislukaffið í norðurstofunni á Bergsstöðum.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór?  Kona í bókabúð og mega lesa allar bækurnar.

Hvað hræðistu mest? Að eitthvað komi fyrir elsku fólkið mitt.

Besti ilmurinn? Af nýslegnu grasi.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Tók bílpróf 23ja ára en þegar ég var 17 fékk ég áminningu frá heimavistarstýrunni fyrir að hækka útvarpið í botn þegar Presley söng „One night“ í Lögum unga fólksins, eftir kl. 22:00.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí?  Spáðu í mig....

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Breskum og norrænum þáttum. Núna: Downton Abbey.

Besta bíómyndin? Fæ aldrei leið á Bíódögum Friðriks Þórs.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á?  Sundmærinni Þórdísi Maríu, fótboltastrákunum Eyþóri Atla og Birgi Má og ökukappanum Jóhanni Karli.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Arfahreinsa garðinn.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu?  Engilráð + eldhús + snilldarverk: „Computer says No“.

Hættulegasta helgarnammið? Snickers, alla daga jafnt.

Hvernig er eggið best? Meðal.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Verkkvíði og frestunarárátta.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? „Gróa á Leiti“

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  Allt hefst þá að er verið. 

Hver er elsta minningin sem þú átt? Líklega þegar ég, svolítið stýri, var með mömmu að reka kýrnar og nautkálfurinn stangaði mig. Hljóp háorgandi inn í bæ þegar ég komst á fætur, í fangið á Kela frænda. Þorði ekki í fjósið lengi á eftir og er enn smeyk við nautgripi. Að mannýgt naut elti mig í draumi var martröð fram eftir öllum aldri.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín?  Andrés önd og allt hans „fólk“.

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Við Margrét Danadrottning erum jafngamlar og nöfnur. Sem smástelpa var ég afskaplega fegin að þurfa ekki að verða drottning þegar ég yrði stór. Er enn við sama heygarðshornið!

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Af svo mörgu að taka.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? .....“Geri þetta í fyrramálið....“

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati?  Hver sá, sem hefur stuðlað að friði og mannréttindum.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Vildi geta gengið um gamla bæinn heima en hann var jafnaður við jörðu.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? „Með sjálfum sér verður hver lengst að fara.“

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...til Grænlands.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér?  Við Alli minn erum eitt, svo hann hlýtur að verða með mér; þarf ekki annað, hann bjargar mér alltaf!

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Læra að steikja pönnukökur, ganga á Tindastól og fara aftur til Parísar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir