Rabb-a-babb 150: Björn Ingi

Nafn: Björn Ingi Óskarsson.
Árgangur: 82.
Fjölskylduhagir: Er að deila lífinu með Siglfirðingnum Margréti Brands og dóttur okkar Viktoríu Brands. Gæti ekki verið heppnari með hlutskipti í lífinu.  Búseta: Bý í Lund á Skáni í Svíþjóð sem er hálftíma frá Kastrúp sem er þrjá tíma frá Keflavík sem er fjóra tíma frá Skagafirði.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Foreldrar eru Óskar skólastjóri Bubba Guðna og Möggu í blómabúðinni, og Erla kennari Kjarra Gísla fisksala og Þóru Guðjóns úr Eyjum. Uppalinn niðrí bæ, túnahverfinu og hverfinu á Sauðárkróki.
Starf / nám: Stúderaði lög við Háskóla Íslands og Árósar háskóla. Er núna barnaskurðlæknaherra og hugmyndasmiður í Lundi. Draumastarf.
Hvað er í deiglunni: Enski er byrjaður og það er okkar ár. Síðan bara að vinna úr hugmyndunum sem ég og Viktoría erum búin að fá í sænska fæðingarorlofinu okkar.

Hvernig nemandi varstu?  Athyglissjúkur framan af, dróg verulega úr því eftir því sem leið á.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum?
 Fermdist á pálmasunnudegi en ekki skírdegi og missti þess vegna af úrslita-körfuboltatúrneringu. Sé ennþá eftir því, forgangsraða börnin góð.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? 
Lögreglumaður, uppfinningamaður og forseti var haft eftir mér einhversstaðar. Nóttin er ung.

Hvað var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Man ekki eftir mér öðruvísi nema með bolta eða bók. Jafnvel á sama tíma.

Besti ilmurinn? Ristaðar möndlur á köldum desemberdegi. Og hárið á ungabörnum. Blanda þessum ilmum saman í sjampó og við erum komin með eitthvað.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið?  Án þín með Sverri og Binna.

Hvaða lag er líklegast að þú takir í Kareókí? You can do it if you put your ass into it með meistara Ice Cube eða Heyr himna smiður. Fer pínu eftir stemningunni.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Missir nokkur maður af einhverju á þessum tímum ólínuleikans Óli Arnar?

Besta bíómyndin ? Die Hard þrjú fannst mér ágæt. Hið fullkomna plott. Shawshank, Good Will Hunting, Braveheart og What Women Want með Mel Gibson komast líka á listann minn. Gullaldarár kvikmyndagerðarinnar var þarna á þessum árum.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Eru íþróttamenn ekki pínu ofmetið fyrirbæri. Yfirleitt einstaklingar sem þiggja laun sem eru í engum tengslum við raunveruleikann eða framlag þeirra til samfélagsins, hlaupandi eftir bolta í algjöru tilgangsleysi?. Djók, sá sem var bestur í síðasta Liverpool sigri er yfirleitt í mesta uppáhaldi þangað til næsti sigur kemur. Já og Guðbrandur Guðbrandsson.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? 
Skurðlæknirinn hefur sérstakan áhuga á að setja saman IKEA húsgögn og barnið hefur séð um að taka hluti af gólfinu og setja upp í sig. Allt annað er á algjörum jafnréttisgrundvelli.

Hvert 
er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Þetta er nú allt orðið frekar auðvelt eftir að maður lærði á gúgúl og jútúb. Ef gesti ber að garði í Lundi reyni ég alltaf bjóða upp á fyllta svínafille með mangó sósu.

Hættulegasta helgarnammið? Ég gæti trúað að vodkahlaup séu ekki holl í miklu magni.

Hvernig er eggið best? Hleypt egg með enskri skonsku, laxi og hollandaise sósu er tyllidaga matur.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu?  Heilsan mætti vera betri.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Er með fóbíu fyrir fólki sem heitir skrýtnum nöfnum. Er að vinna í þessu.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? BÓNÓ.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Hún er varla prenthæf, en fyrst að það kannast engin við föður minn sem les þetta þá hlýtur það að sleppa til. Ég man eftir að hafa velt því lengi fyrir mér afhverju fullorðnir grétu ekki til að fá það sem þeir vildu og var með þá kenningu að fullorðnir gætu líffræðilega ekki grátið. Ætli þetta hafi ekki verið um þriggja ára aldurinn. Til að sannreyna kenninguna beit ég eins fast og ég gat í rasskinnina á föður mínum og sleppti ekki takinu þótt að hann reyndi að rífa mig af með krafti. Sá engan fullorðin gráta í það skiptið en það voru einhver öskur. Tárin hefðu samt líklega komið ef hann hefði ekki verið í gallabuxum. Semsagt, ákveðinn forsendubrestur í rannsókninni.

Hvaða teiknimyndapersóna höfðar mest til þín?  Júrgen Klopp

Hvaða fræga manneskja mundir þú helst vilja vera? Finnst ekkert að því að vera bara ég, en það væri gaman að vera sá sem á Twitter. Svona til að geta hent Trump þaðan út. Heldur að heimurinn yrði strax skárri.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur?  Erfiðasta spurningin fyrir nördinn. Margar góðar bækur til af ýmsum tilefnum: Aðfarargerðir eftir Markús Sigurbjörnsson er lögfræðilegt meistaraverk, Siðfræði eftir Pál Skúlason finnst mér gaman að glugga í, Salka Valka er besti Laxnesinn, Camilla Läckberg, Dan Brown og John Grisham missi ég sjaldan af, Alkemistinn er djúp, 100 ára einsemd er mögnuð sápa miðað við að vera heimsbókmennt og Harry Potter er frábært ævintýri fyrir alla aldarshópa.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ég skojar

Hver var mikilvægasta persóna síðustu 100 ára að þínu mati? Ghandi stóð sig vel. Enda lögfræðingur.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ætli ég myndi taka það að mér að reyna að komast í inntökunefnd Listaháskólans í Vín í byrjun 20 aldar til að gefa ungum austurískum listamanni tækifæri þegar hann sækir um, þannig að hann geri listina að ævistarfi. Eða fara til Nice í júlí 2016 og horfa á Ísland slá út Englendinga.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni?  Allt fer eins og það á að fara

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
Heim í heita pottinn og folaldakjöt í Háuhlíðina. Síðan til Balí.

Ef þú ættir að dvelja alein/n á eyðieyju, hvaða þrjá hluti tækirðu með þér? 
Þyrlu, speedo sundskýlu og tekíla flösku.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Veita barninu gott og áhyggjulaust uppeldi, sjá til þess að Siglfirski lífsförunauturinn minn verði hamingjusamur út sína ævidaga og reyna að njóta lífsins á minn hátt ,einn dag í einu. Þá hugsa ég að ég verði bara nokkuð sáttur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir