Rabb-a-babb 173: Katharina

Nafn: Katharina Angela Schneider
Árgangur: 1980.
Fjölskylduhagir: Fráskilin, tvö börn, Baltasar 9 og Elísabet 11 ára.
Búseta: Blönduós.
Hverra manna ertu og hvar upp alin/n: Schneider, alin upp í Stuttgart, Þýskalandi.
Starf / nám: Forstöðumaður bókasafnsins A-Hún og verkefnastjóri hjá Textílmiðstöð Íslands
Hvað er í deiglunni: Plana sumarið og ákveða hvenær við heimsækjum vini og fjölskyldu í Þýskalandi.

Hvernig nemandi varstu? Ég var góður nemandi en uppreisnargjörn og örugglega alveg óþolandi sem unglingur.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Mamma safnaði frá allri fjölskyldunni fyrir draumahljóðfærinu mínu, “pedal harp” (stóra hörpu), sem ég fékk þennan dag (átti minni hörpu áður). Ég æfði þó aldrei eins mikið eins og ég hefði átt að gera og við seldum hana þegar ég flutti að heiman. Ef einhver hefur hörpu sem þeir vilja losna við má endilega láta mig vita.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Blaðakona.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Mér fannst alltaf skemmtilegast að leika með öðrum krökkum.

Besti ilmurinn? Nýbakað brauð.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Ég var mikið í Skotlandi á þessum tíma og hlustaði á nýja tónlist á BBC Radio 1, Radiohead, Portishead, Smashing Pumpkins og þess háttar.

Hvernig slakarðu á? Í sundlauginni á Blönduósi, eflaust ein besta sundlaug landsins, ekki bara af því þar er alltaf heitt kaffi í boði. Við laugina, sko.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Heimildarþætti.  

Besta bíómyndin? 2001: A Space Odyssey. Af því Stanley Kubrick er snillingur.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Alex Honnold.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? Að skoða matreiðslubækur.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Pizza.

Hættulegasta helgarnammið? Ís frá Valdís.

Hvernig er eggið best? Egg er alltaf best, hvort sem um súkkulaði, spæld egg og bacon, Eggs Benedict eða Russian eggs er að ræða.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Hvað ég get verið óþólinmoð.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? Þegar hlutirnir ganga ekki nógu hratt fyrir sig.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun?  „Þetta reddast“. Þurfti að læra allt um það þegar ég flutti til Íslands.

Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ég væri til að vera nafna mín, Angela Merkel, í einn venjulegan vinnudag. Hvað gerist? Hver hringir? Hvenær fer maður að sofa þegar maður er kanslari frá Þýskalandi?

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Florian Illies, 1913. Stórskemmtileg blanda af skáldsögu og sagnfræðiriti.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? Ekkert sérstakt, held ég, er hvort eð er alltaf að rugla saman þýsku, ensku og íslensku.

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Ljóðskáldinu Philip Larkin, leikkonunni Elizabeth Taylor og heimildamyndagerðamanninum Louis Theroux. Get ímyndað mér að þau hafi öll svipaðan húmor og það væri örugglega stórskemmtileg að hlusta á þau spjalla saman. 

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? 1920s New York City til að dansa og skemmta mér alla leið til 1929.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Takk fyrir mig.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu… til Bretlands áður en Brexit skellur á.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Bara þrennt! Það er ekki hægt. Það er svo margt spennandi eftir að gera, læra og upplifa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir