Rabb-a-babb 186: Valli Blönduósingur

Nafn: Valdimar Guðmannsson.
Árgangur: 1952.
Fjölskylduhagir: Giftur Ólöfu Pálmadóttur, við eigum tvö börn og fimm barnabörn.
Búseta: Sunnubraut 4 á Blönduósi.
Hverra manna ertu og hvar upp alinn: Faðir minn var Guðmann Valdimarsson, móðir Laufey Jónsdóttir. Þau bjuggu í Bakkakoti þar sem ég ólst upp. Síðar keypti ég hálfa jörðina og hóf búskap með foreldrum mínum.
Starf / nám: Var bóndi í Bakkakoti þar til við fluttum á Blönduós fyrir um 20 árum. Ég var fjóra vetur í barnaskóla á Blönduósi.
Hvað er í deiglunni: Njóta þess að vera orðinn löggiltur gamall, vinna meðan ég nenni og hugsa um kirkjugarðinn og kótilettur í frítímum.

Rabbið:

Hvernig nemandi varstu? Lélegur.

Hvað er eftirminnilegast frá fermingardeginum? Fór úr fermingafötunum um leið og ég kom heim til að hjálpa kind sem var að bera niður á bjargi.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú yrðir stór? Sauðfjárbóndi.

Hvert var uppáhalds leikfangið þitt þegar þú varst krakki? Horn og leggir.

Besti ilmurinn? Í dag er það ilmur af góðum kótilettum.

Hvar og hvenær sástu núverandi maka þinn fyrst? Á biðstofu á Sjúkrahúsinu á Blönduósi, hún fótbrotin og ég tábrotinn.

Hvað varstu að hlusta á þegar þú fékkst bílprófið? Það var hljóðlátt í bílnum þegar ég tók bílprófið.Tónlistin á þessum tíma var bara sú sem Geirmundur spilaði.

Hvernig slakarðu á? Ekki möguleiki, ég reyndi á Reykjalundi en tókst ekki.

Hverju missirðu helst ekki af í sjónvarpinu? Landinn, Silfrið og aðrir viðtalsþættir.

Besta bíómyndin? Ófærð.

Hvaða íþróttamanni hefurðu mestar mætur á? Guðbjörgu Gylfadóttur frá USAH.

Hvað gerir þú betur en allir aðrir á þínu heimili? 
 Vera ekki fyrir í eldhúsinu.

Hvert er snilldarverkið þitt í eldhúsinu? Hræra afaskyr.

Hættulegasta helgarnammið? Nýr lakkrís.

Hvernig er eggið best? Spælt báðum megin.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari þínu? Latur að fara út og labba.

Hvað fer mest í taugarnar á þér í fari annarra? 
Þeir sem sjá flest allt neikvætt.

Uppáhalds málsháttur eða tilvitnun? 
Sjáum björtu hliðarnar.

Hver er elsta minningin sem þú átt? Þegar við áttum heima í torfbænum í Bakkakoti og það var aldrei þröngt, sama hversu margir voru í gistingu.

Þú vaknar einn morgunn í líkama frægrar manneskju og þarft að dúsa þar einn dag. Hver værirðu til í að vera og hvað myndirðu gera? Ég myndi vilja vera sveitarstjórnaráðherra, myndi fækka sveitarfélögum í tíu.

Hver er uppáhalds bókin þín og/eða rithöfundur? Húnavökuritið sem USAH gefur út og uppáhalds rithöfundarnir er ritnefnd ritsins.

Orð eða frasi sem þú notar of mikið? „Já, ég skal gera það.“

Hvaða þremur persónum vildirðu bjóða í draumakvöldverð? Ég myndi aldrei bjóða færri en fimm; maka, börnum og tengdabörnum. Þau eiga bara skilið að umbera mig.

Ef þú gætir farið til baka í tímann, hvert færirðu? Ég myndi vilja byrja aftur 16 ára – það var bara gaman að vera orðinn bóndi.

Hver væri titillinn á ævisögu þinni? Að brenna fyrir því sem maður tekur að sér.

Framlenging:

Ef þú gætir hoppað upp í flugvél og réðir hvert hún færi, þá færirðu...
í útsýnisflug með Magnúsi frá Sveinsstöðum.

Nefndu eitthvað þrennt sem þér finnst þú mega til að gera áður en þú gefur upp öndina: Klára framkvæmdir við kirkjugarðinn á Blönduósi, skoða Ísland aðeins meira og byggja bílskúr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir