231 millj. króna rekstrarhagnaður A- og B-hluta Svf. Skagafjarðar

Ársreikningur Sveitarfélagsins Skagafjarðar fyrir árið 2019 var  lagður fram til seinni umræðu á fundi sveitarstjórnar sl. miðvikudag. Í fundargerð segir að ársreikningurinn samanstandi af upplýsingum um A-hluta sveitarsjóðs og A- og B-hluta samantekinn. Í A-hluta er aðalsjóður auk eignasjóðs og þjónustustöðvar en í B-hluta eru veitustofnanir, hafnarsjóður, félagslegar íbúðir, Tímatákn ehf. og hlutdeild Sveitarfélagsins Skagafjarðar í Eyvindarstaðaheiði ehf.

Í fundargerð sveitarstjórnar kemur eftirfarandi fram:
„Rekstrartekjur Sveitarfélagsins Skagafjarðar námu á árinu 5.977 millj. króna af samstæðunni í heild. Þar af voru rekstrartekjur A-hluta 5.119 millj. króna. Rekstrargjöld samstæðunnar að frátöldum afskriftum og fjármagnsliðum voru 5.250 millj. króna, þar af A-hluti 4.660 millj. króna. Rekstrarhagnaður A- og B-hluta fyrir afskriftir og fjármagnsliði er 728 millj. króna, þar af er rekstrarniðurstaða A-hluta jákvæð fyrir afskriftir og fjármagnsliði um 459 millj. króna. Afskriftir eru samtals 234 millj. króna, þar af 139 millj. króna hjá A-hluta. Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur voru hjá samstæðunni í heild samtals um 262 millj. króna, þ.a. eru 205 millj. króna fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur í A-hluta sveitarsjóðs. Rekstrarhagnaður A- og B-hluta á árinu 2019 er 231 millj. króna og rekstrarafgangur A hluta er jákvæður um 115 millj. króna.

Eignir Sveitarfélagsins Skagafjarðar A- og B-hluta voru í árslok samtals 10.102 millj. króna, þar af voru eignir A-hluta 8.040 millj. króna. Skuldir og skuldbindingar voru í árslok 2019 samtals 6.999 millj. króna, þar af hjá A-hluta 6.205 millj. króna. Langtímaskuldir námu alls 4.577 millj. króna hjá A- og B-hluta auk 401 millj. króna næsta árs afborgana. Eigið fé nam 3.103 millj. króna hjá samstæðunni í árslok og er eiginfjárhlutfall 30,7%. Lífeyrisskuldbindingar nema 1.249 millj. króna í árslok og hækkuðu á árinu um 49 millj. króna nettó.

Veltufé frá rekstri A- og B-hluta nam 667 millj. króna, þar af er veltufé frá rekstri A-hluta 420 millj. króna. Handbært fé frá rekstri A- og B-hluta er 424 millj. króna. Fjárfestingahreyfingar samstæðunnar námu á árinu 2019, 563 millj. króna, þar af námu fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum 578 millj. króna. Afborganir langtímalána og skuldbreytinga námu 423 millj. króna, handbært fé nam 120 millj. króna í árslok. Tekin ný langtímalán og skuldbreytingar voru að fjárhæð 422,5 millj. króna.

Í 64. gr. sveitarstjórnarlaga er kveðið á um að heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum skv. 60. gr. megi ekki vera hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum. Hjá Sveitarfélaginu Skagafirði er skuldahlutfall í ársreikningi fyrir árið 2019, 123,8% og skuldaviðmið samkvæmt reglugerð er 88,2% þegar búið er að draga frá það sem heimilað er vegna lífeyrisskuldbindinga af heildarskuldum og skuldbindingum og veltufjármuni.“

Nokkuð var um bókanir vegna ársreikningsins og sagði Bjarni Jónsson m.a. í bókun VG og óháðra að síðustu ár hafi flest sveitarfélög í landinu búið við góðæri og væri Skagafjörður þar engin undantekning. „Tekjur þeirra hafa verið að aukast og hefðbundnir tekjustofnar verið traustir þó nú séu víða blikur á lofti. Sveitarfélög sem Skagafjörður vill bera sig saman við hafa því auk þess að styrkja innviði, verið að greiða niður skuldir og þannig styrkja stöðu sína gagnvart mögulegum áföllum og leggja grunn að frekari uppbyggingu. Því miður er Skagafjörður ekki í þeim hópi þó vissulega hafi hér verið unnið áfram að mikilvægri innviðauppbyggingu.“

Jóhanna Ey Harðardóttir tók einnig til máls og lagði fram bókun Byggðalistans en þar stendur m.a.: „Það má segja að ársreikningur fyrir árið 2019 marki ákveðin kaflaskil. Löngu hagvaxtarskeiði virðist lokið, og við taka erfiðari tímar, þar sem opinberar framkvæmdir verða enn mikilvægari og í raun nauðsynlegar fyrir atvinnulífið. Ekki tókst að borga niður skuldir á undangengnu hagvaxtarskeiði, og ekki er útlit fyrir að það verði vænlegt í þeirri niðursveiflu sem framundan er. Því hlýtur að þurfa að velta því fyrir sér, hvenær stendur til að borga niður skuldir?“

Þá kvaddi Stefán Vagn Stefánsson sér hljóðs og lagði fram bókun meirihlutans en þar segir m.a. að ljóst þyki að Sveitarfélagið Skagafjörður muni taka á sig högg vegna Covid-19 áhrifa líkt og öll önnur sveitarfélög landsins. „… en það er jafn ljóst að við munum standa það af okkur enda bera kennitölur rekstrar þess merki að undirstöður eru sterkar og þola vel ágjöf sem þessa. Sveitarfélagið Skagafjörður er og á að vera í fremstu röð íslenskra sveitarfélaga og sennilega aldrei mikilvægara en nú að snúa vörn í sókn og sækja fram fyrir Skagafjörð, tækifærin eru okkar, möguleikarnir eru okkar.

Rekstur sveitarsjóðs er í góðu jafnvægi og batnar frá síðasta ári sem er jákvætt og má sama segja um einstaka málaflokka hjá sveitarfélaginu en rekstur þeirra var heilt yfir á áætlun sem er gleðilegt og ber vott um ábyrga fjármálastjórn og stöðugleika í rekstri.“

Hægt er að nálgast fundargerð HÉR

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir