Aldrei of gamall til þess að læra - Reynistaðabræður, Fjalla Eyvindur, Björn Eysteinsson, forustufé og fjallamenn í bland við síðustu aftökuna hjá Magnúsi á Sveinsstöðum

Magnús Ólafsson, sagnameistari á Sveinsstöðum, segir frá atburðum síðustu aftökunnar á Íslandi á Þrístöpum. Mynd: Axel Jón.
Magnús Ólafsson, sagnameistari á Sveinsstöðum, segir frá atburðum síðustu aftökunnar á Íslandi á Þrístöpum. Mynd: Axel Jón.

Magnús Ólafsson, sagnamaður á Sveinsstöðum í Austur-Húnavatnssýslu, hefur í nógu að snúast þó kominn sé af allra léttasta skeiði. Í vetur hefur hann verið í leiðsögunámi hjá Ferðamálaskóla Íslands á Bíldshöfða og stefnir á að fara nýja söguferð með hópa um heillandi slóðir. Þá verður væntanlega framhald á hestaferðum hans um söguslóðir síðustu aftökunnar á Íslandi. Feykir hafði samband við Magnús og spurði hann út í námið og ferðirnar, sem mynd er að færast á þessa dagana.

„Nú eru Reynisstaðabræður komnir sterkt inn í minn huga og ég er með í undirbúningi fjögurra daga ferð á góðum fjallabíl þar sem ekið verður upp úr sunnlenskum sveitum svo til nákvæmlega leiðin sem Reynisstaðabræður fóru sína hinstu för haustið 1780. Þeir fóru frá Tungufelli og tjölduðu næstu nótt í Svínárnesi við Sandá. Hreppamenn fylgdu þeim þar uppeftir og áfram daginn eftir allt þar til norðanmenn fóru yfir Jökulfallið. Þess vegna er vitað með vissu hvar þeir fóru. Næsta sumar fundust bein tveggja manna og einnig bein fjölda fjár og hrossa á og við Beinhól. Mannshönd í vettling fannst næsta vor við Blöndu. Á þumal vettlingsins voru saumaðir stafirnir J. A., upphafsstafir Jóns Austmanns. Var því talið nokkuð víst að Jón hefði freistað þess að komast til byggða eftir hjálp. Það var svo 65 árum síðar sem bein bræðranna fundust.“

Magnús segir að þessi magnaða örlagasaga verði sögð á meðan leiðin upp með Hvítá og Jökulfallinu verður farin í sumar. Komið verður á Beinhól á öðrum degi ferðarinnar og segir Magnús það magnaðan stað að standa á og hugsa um örlög vaskra manna. Þá verður komið við á Hveravöllum þar sem stórbrotin náttúra verður skoðuð og saga Fjalla Eyvindar sögð.

„Hugsanlega verður kíkt yfir Þjófadali, enda talið að þar hafi verið gósenland fyrir útilegumenn. Á leiðinni norður Auðkúluheiði þegar sér yfir Forsæludalskvíslar verður saga Björns Eysteinssonar sögð. Einn af þeim mörgu Íslendingum sem tókust á við harða náttúru en höfðu sigur.“

Í hestaferð um söguslóðir. Mynd af FB/ Eydís Ósk Indriðadóttir.

Í hestaferð um söguslóðir. Mynd af FB/ Eydís Ósk Indriðadóttir.Margar sögur lifa
Magnús hefur frætt marga um síðustu aftökuna á Íslandi sem fram fór á Þrístöpum í Vatnsdalshólum, skammt frá Sveinsstöðum m.a. farið hestaferðir um sögustaði er tengdust fólki sem flæktu sína örlagaþræði í þá atburði. Í fyrravetur flutti hann, á sögulofti Landnámssetursins í Borgarnesi, söguna Öxin, Agnes og Friðrik við miklar vinsældir. Það er einmitt á þriðja degi ferðarinnar verður ekið um söguslóðir síðustu aftökunnar, bæði um Vatnsdal og Vatnsnes. „Að heyra kjarna sögunnar á Þrístöpum er mörgum ógleymanlegt,“ útskýrir Magnús og eru það orð að sönnu.

„Seinasta daginn verður svo ekið suður að Arnarvatni stóra og Réttarvatni. Þar hittust Húnvetningar og Borgfirðingar um árabil og lifa margar sögur um þeirra samfundi. Síðan ekið niður með Norðlingafljóti í Húsafell. Þaðan suður Kaldadal en um Kaldadal reið Skúli á Sörla forðum og um Kaldadal fór móðir mín rúmlega fermd þegar hún var send einsömul ríðandi norður í Kalmannstungu að sækja hest. Mögnuð saga um magnaða konu.“

Magnús vonast til að um frábæra ferð verði að ræða, með fjölbreyttu landslagi og miklum sögum. „Ég hef tryggt mér góðan bíl í ferðina þannig að vel fari um þátttakendur og gönguferðir í lágmarki. Þar sem sætafjöldinn er takmarkaður er vissara fyrir þá sem hefðu hug að fylgja mér í þessari ferð að hafa samband sem fyrst. Allar nætur verður gist á góðum gististöðum með uppbúnum rúmum og snæddur góður kvöldverður.“

Auk framangreindar ferðar ætlar Magnús að fara fjórar ferðir ríðandi um söguslóðir síðustu aftökunnar í sumar en slíkar ferðir hefur hann farið þrjú undanfarin ár. Segir hann þeim fjölgi stöðugt sem vilja komast í þær. „Frábærar reiðleiðir og sagan er hvergi magnaðri en sé hún sögð þar sem hún gerðist. Þá tek ég á móti hópum á Þrístöpum og með einhverjum fer ég á bíl um hluta af söguslóðunum.“

Magnús segir þessar tilteknu hestaferðir afleiðingu af stuttri færslu sem hann setti á Facebook fyrir þremur árum og bauð fólki að ríða með sér um þessar söguslóðir. Segist hann enn getað bætt við hestafólki í ferðina, sem hefst 24. júlí eða upp úr miðjum ágúst. Nánari upplýsingar gefur Magnús í síma 898 5695 eða á netfanginu mao@centrum.is. Einnig er hægt að heimsækja Facebook-síðuna Dynur og Saga.

Við Breiðamerkurjökul í helgarferð leiðsögunema. Mynd aðsend.

Við Breiðamerkurjökul í helgarferð leiðsögunema. Mynd aðsend.Setið langdvölum við tölvuna
Magnús hefur stundað leiðsögunám hjá Ferðamálaskóla Íslands á Bíldshöfða og segir það frábært nám og gefandi. Kennt er um starf leiðsögumanns, áhugaverða staði, sögu lands og þjóðar, jarðfræði, fuglalíf, jurtir, íslenska hestinn, veiðiár og veiðar, eldgos og náttúruhamfarir, mannleg samskipti, veðurfræði, norðurljós, ábyrgð leiðsögumanns, slysavarnir og slysahjálp og raunar allt sem góðum leiðsögumanni kemur að notum.

„Mikið er kennt í fjarnámi og því sit ég mörg síðdegi og kvöld við tölvuna og hlusta á fræðandi efni. Stundum er líka farið í vettvangsferðir, t.d. mun verða farin hringferð um landið við námslok til að setja punktinn yfir öflugt nám. Þó við nemendurnir hittumst sjaldan hefur myndast áhugaverð og skemmtilegar tengingar í hópnum, eins og oft gerist í skóla. Þarna eru magnaðir einstaklingar, sem margir hafa sinnt ýmsum þáttum ferðaþjónustunnar en eru að auka sína þekkingu. Þarna höfum við til dæmis margreynda rútubílstjóra, reyndan íshellaleiðsögumann og annan sem hefur farið um fjöll, firnindi og jökla með ferðamenn á öflugum jeppum. Í náminu læt ég ekkert tækifæri ónotað til að kynna þessa verðandi leiðsögumenn fyrir þeim náttúruperlum sem við eigum hér í Húnaþingi og okkar mögnuðu sögu. Vona ég að þetta magnaða fólk komi á næstu árum með hópa ferðafólks í okkar góða hérað.“

Áður birst í 13. tbl.  Feykis 2021.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir