Allir eiga að bera ábyrgð á sjálfum sér - Dagmál Sverris Magnússonar

Sverrir Magnússon. Mynd: PF.
Sverrir Magnússon. Mynd: PF.

Út er komið ljóðakverið Dagmál sem inniheldur vísur og kvæði Sverris Magnússonar, fv. bónda í Efri-Ási í Hjaltadal í Skagafirði. „Tilfinning hans fyrir umhverfinu og náttúrunni má finna nær áþreifanlega í vísum hans og kvæðum,“ segir á bókarkápu, „Hann er heitur hugsjónamaður, yrkir jörðina og lofar hana í senn.“

Kannski er þetta enginn kostaviður
á kræklum lítið mark ég tek.
Furan bara fleygast niður,
fúnar og verður sprek.

Formála ritar Kristján Hjelm, fv. sparisjóðsstjóri Sp.sj. Hólahrepps og segir það hafi ósjaldan verið þannig að að þegar stjórnarfundi lauk hafi góð vísa frá Sverri verið færð í fundargerðabókina og þá oft í tilefni einhvers málefnis, en Sverrir sat í stjórn sjóðsins.

„Það gladdi mig mjög þegar Sverrir kastaði fram vísum í lok stjórnarfundar og það sem gladdi mig enn meira var fjölbreytileiki hans í vísnagerð. Hann gat verið hnyttinn, beittur og stundum háðskur. En hann gat líka verið næmur og tilfinningarríkur,“ skrifar Kristján.

Sverrir er fæddur í Reykjavík þann 20. júní 1942. Í æsku bjó hann að Reykjabóli í Hrunamannahreppi, Hann stundaði nám við Bændaskólann á Hólum veturinn 1960 til 61. Sverrir og kona hans, Ásdís Pétursdóttir, hófu búskap að Efri-Ási í Hjaltadal árið 1962 og bjuggu þar í fjörutíu og fimm ár. Nú búa þau á Sauðárkróki en eiga enn athvarf í Ásholti í Hjaltadal. Þau eiga fjögur börn, níu barnabörn og sjö barnabarnabörn. 

Bjartsýni

Nú fer ég upp til fjalla,
um flóa, móa og hjalla.
Ferðin farin er
um lyngbrekkur og lautir,
labba gamlar brautir,
augað yndið sér.

Ég horfi hátt til heiða,
hugann nær að seiða.
Við himinn bjartan ber
allt sem yndi veitir,
um óbyggðir og sveitir
hér um hugann fer.

 Hann svo læt ég líða,
leita yndis víða.
Dulmögn dái ég,
innra sólskin seiðir,
sindrar á flestar leiðir
lífs um ljúfan veg.

Sverrir sér sjálfur um að selja og dreifa kverinu en segir Covid-ástandið hafa tafið fyrir sér. Hann hafi ætlað í söluferð en vegna veirunnar ákveðið að halda að sér höndum. Þeir sem vilja eignast bókina eru hvattir til að hafa samband við Sverri sem kemur henni til skila með einhverjum ráðum. Allir eiga að bera ábyrgð á sjálfum sér, segir í fyrirsögn og er það titill lokavísunnar.

Út þá lífsins logar brenna,
ljósið slokknar, molnar skar.
Aldrei skal ég öðrum kenna
eigin glöp og hörmungar.

Sverrir segist eiga nóg efni í annað kver og útilokar ekki að veturinn verði notaður til að vinna í því. Hver veit nema að þessi vísa fái þá að fljóta með sem nýlega varð til um þekkt málefni:

Yfir færist íslenskt húmið
ekki gildir hefðin forn.
Dorrit Samson setti í rúmið
og sendi Ólaf út í horn.

Áður birst í 31. tbl. Feykis 2020

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir