Allt helgihald í Skagafirði fellur niður um jól og áramót

Vegna samkomutakmarkana fellur allt helgihald í Skagafirði niður um jól og áramót, samkvæmt því sem fram kemur á Facebooksíðunni Kirkjan í Skagafirði. Jólamessur í Hóladómkirkju og Sauðárkrókskirkju verða sendar út á netinu.
„Kæru nágrannar og vinir! Ákvörðun hefur verið tekin um að ekkert helgihald verður í kirkjunum í Skagafirði þessi jól og áramót. Við höfum ekki tök á að hólfaskipta eða hafa einn metra á milli. Auk þess hefur sóttvarnarlæknir hvatt okkur til að hitta sem fæsta yfir hátíðirnar. Ég bendi á að hátíðaguðsþjónusta var tekin upp í Hóladómkirkju nú í desember og verður hún sýnd á N4 á jóladag kl. 15:00 og á annan í jólum kl. 13:00.
Guð gefi okkur öllum gleðileg jól,“ segir á síðunni.
Jólamessur í Hóladómkirkju og Sauðárkrókskirkju verða sendar út á netinu.
Sjá nánar á fb. síðunni Kirkjan í Skagafirði.