Annað tap Tindastóls á fjórum dögum

Jamie er sáttur við lið sitt en ekki dómgæsluna. MYND: ÓAB
Jamie er sáttur við lið sitt en ekki dómgæsluna. MYND: ÓAB

Tindastóll og KV mættust á Króknum í gærkvöldi í 3. deild karla í knattspyrnu. Eftir slæman skell um helgina gegn Vængjum Júpíters voru Tindastólsmenn ákveðnir að rétta úr kútnum en það fór því miður á annan  veg. Gestirnir náðu snemma forystunni og þegar Atli Dagur, markvörður Stólanna, fékk að líta rauða spjaldið um miðjan fyrri hálfleik var ljóst að það yrði á brattann að sækja. Þrátt fyrir fína frammistöðu Tindastólsmanna við erfiðar aðstæður þá voru það gestirnir úr Vesturbænum sem hirtu stigin þrjú með 0-2 sigri.

Einar Már Þórisson náði forystunni fyrir lið KV á 19. mínútu og sex mínum síðar fékk Atli Dagur að líta rauða spjaldið hjá dómara leiksins eftir samstuð við leikmann gestanna. Í markið steig 15 ára gutti, Einar Ísfjörð Sigurpálsson, og stóð heldur betur fyrir sínu. Hann kom þó ekki í veg fyrir að Askur Jóhannsson bætti við marki á 54. mínútu og þar við sat. Jamie þjálfari fékk að líta rauða spjaldið á 79. mínútu fyrir mótmæli en hann hefur verið ákaflega ósáttur við dómgæsluna í sumar eins og fram kemur hér að neðan. Hann var engu að síður ánægður með frammistöðu liðs síns í leiknum.

Lið Tindastóls er eftir leikinn í fimmta sæti 3. deildar en KV sem fyrr í öðru sæti.

Tveir nýir leikmenn í liði Tindastóls í næsta leik

Feykir hafði samband við Jamie McDonough í morgun og spurði hvernig staðan væri í leikmannamálum Tindastóls, hvort von væri á viðbótum. „Já, við höfum náð að bæta við okkur tveimur nýjum leikmönnum. Annar er miðvörður en hinn framherji. Það var 100% þörf á þessum viðbótum,“ segir Jamie en fimm kappar voru á bekk Stólanna í gær, þar af tveir 15 ára strákar og Jamie sjálfur. „Og ég er ekkert sérstaklega góður!“ segir Jamie. „Við erum með mjög lítinn hóp en við verðum að sjá til þess að við höfum 16-17 eldri leikmenn til að klára tímabilið.

Fjárhagsástandið hérna er augljóslega ekki gott eftir að við urðum að aflýsa Króksmótinu. Þannig að líkt og í byrjun sumars höfum við þurft að beita klókindum til að fá til okkur mannskap. Nýju strákarnir eru að leggja mikið á sig með því að koma til að spila með liði Tindastóls. Við erum að borga þeim vasapeninga, aðeins fyrir mat og ekki meir. Það er mikil áhætta fyrir þá og þeir eru hér vegna þess að þeir vilja fá tækifæri til að spila. Við vitum að Króksarar munu taka vel á móti þeim og við hlökkum til að hafa þá í liðinu á laugardaginn gegn KFG.“

Tveir ungir markmenn sjá um að verja mark Tindastóls í sumar. Atli Dagur Stefánsson (1999) hefur hingað til staðið í markinu og staðið sig með prýði, en í gær fékk hann að líta rauða spjaldið sem fyrr segir. Í markið kom þá Einar Ísfjörð Sigurpálsson (2005). „Það hljóta allir bæjarbúar að vera stoltir af Einari – er það ekki!? Þvílíkur kappi!“ segir Jamie. „Ég var að velta fyrir mér hvort ég ætti að setja Ísak í markið eða Einar. Tíu menn og 70 mínútur eftir af leiknum, þetta hefði getað endað illa og ég var að hugsa um hvort það væri sanngjarnt að setja 15 ára strák inn á í þessari stöðu. Svo sneri ég mér við og hann var að setja á sig hanskana. Hann tók ákvörðunina fyrir mig. Hann er ótrúlegur ungur maður og þroskast og lærir alla daga. Ég og liðsfélagar hans erum svo stoltir af honum!

Frammistaða Einars þýðir að ég þarf að taka stóra ákvörðun varðandi framhaldið. Við verðum þá að mæta með annan markvörð í næsta leik nú á laugardaginn. Ég mun nota tengiliði mína og fleiri til að tryggja að við finnum réttan leikmann og manneskju fyrir þann leik. Við erum þegar með 2 -3 markmenn sem við erum að skoða.

„Við erum ekki að ströggla“

Feykir spurði Jamie hversvegna hann teldi að lið Tindastóls væri að ströggla en fá stig hafa safnast í sarpinn síðustu vikur. „Einfalda svarið fyrir mér er að við erum ekki að ströggla. Leikurinn gegn Vængjum Júpíters var hræðilegur, við tökum allir ábyrgð á honum. Öll lið eiga slæma daga. Þar fyrir utan höfum við ekki verið að ströggla sem lið þegar kemur að frammistöðu eða gæðum.

Við misstum af þremur stigum gegn Ægi í leik sem hefði ekki verið spilaður fyrir Covid. Vindurinn var svo sterkur að einn leikmaður þurfti að halda við boltann í markspyrnum og aukaspyrnum. Þegar vindurinn er svona mikill á annað markið þá eru úrslitin bara happdrætti.

Við fengum frábært stig gegn liði Augnabliks. Staðan í deildinni segir ekki alltaf alla söguna. Þeir eru klárlega besta liðið í þessari deild. Á þeirra degi, á góðum velli í góðu veðri, væru þeir besta liðið í 2. deild. Við vorum mjög nálægt því að vinna þann leik og tölfræði leiksins sýnir. Við vorum 49% með boltans en þeiir 51%. Þetta er liðið sem „spilar besta fótboltann fyrir utan Pepsi“ - Jæja, við erum að gera það sama og við munum verða betri í því. Strákarnir hérna voru hundleiðir á að spila langt, negla fram og elta boltann. Við erum að breyta um stíl og það tekur tíma.

Við lékum við Huginn/Hött fyrir austan og með boltann 80%. Þeir fengu tvö færi til að skora, nýttu annað þeirra og vörðust síðan mjög djúpt á loðnum og þurrum grasvelli. Hitt færið kom eftir aukaspyrnu á þeirra vallarhelmingi. Við virðum það sem þeir voru að gera, þetta er fótbolti, en við áttum pottþétt ekki í erfiðleikum með að spila fótbolta.

Síðan í gærkvödi. Með tíu leikmenn, þar á meðal 15 ára markvörð sem var frábær, vorum við jafn góðir og þeir með ellefu. Markvörður þeirra þurti að verja oftar en Einar Ísfjörð gerði síðustu 70 mínúturnar í marki Tindastóls. Það voru fimm stórar rangar ákvarðanir teknar í leiknum af dómurunum. Staðan í dómaraleiknum var 4-1 fyrir KV og leiknum lauk þegar þær ákvarðanir voru teknar.“

Dómgæslan í deildinni vandræðaleg

„Ég er þreyttur á að segja ekki neitt. Standardinn á dómgæslunni í þessari deild ætti að vera vandræðalegur fyrir KSI. Ég fæ það á tilfinninguna að svo sé ekki því allir sem ég tala við segja mér að svona slæmt hafi þetta verið í mörg ár. Þetta ætti að vera vandræðalegt fyrir dómarana en samtölin sem við höfum átt við þá eftir leiki segja manni að svo sé ekki. Þeir eru ekki einu sinni vandræðalegir þegar ljóst er að þeir þekkja ekki leikreglurnar. Þeir eru ánægðir að breyta atburðum í eigin höfði. Sáttir við að breyta því sem þeir hafa sagt við leikmenn á vellinum eftir leikinn! Það sem gerðist í gærkveldi er ekki það versta. Allir sem horfðu á leikinn gegn Samherjum eða leikinn gegn Sindra hér muna hversu vandræðalegir slakir þeir voru. Til dæmis eftir vítið sem Atli varði á móti Sindra og þeir létu taka það aftur ... röng ákvörðun þegar þú horfir á myndbandið. Ég á ekki í vandræðum með rangar ákvarðanir… en hvernig getirðu sagt að einhver fari af línunni þegar hann gerir það ekki? Þú hefur séð eitthvað sem gerðist ekki þegar þú það er aðeins eitt atriði sem þú átt að fylgjast með. Þetta er sami aðstoðardómarinn sem gaf vítaspyrnuna til að byrja með. Þetta er í eina skiptið sem ég hef séð aðstoðardómara dæma eitthvað á Íslandi!

Stærsta vandamálið er að enginn svona dómur hefur fallið okkur í hag ennþá. Við höfum enga leiki unnið í sumar þar sem við höfum sigrað vegna mistaka dómara og þegar átta af þeim þrettán leikjanna sem við höfum spilað eru eins og grín, þegar horft er á þá á myndbandi, þá er það eitthvað sem er að verða svolítið vandamál. Það að leikirnir eru teknir upp á myndband þýðir að ég get sagt þetta. Við horfum á þá aftur. Við höfum unnið leikina með verstu ákvörðunum þannig að ég er ekki að kvarta vegna þess að við séum að tapa, ég er að segja að ég hafi sönnunargögn sem segja að þetta sé alvarlegt vandamál! Ég ætla að sleppa því að segja hvað ég held að sé í gangi vegna þess að það mun koma mér í alvarleg vandræði.

Nú höfum við misst Tanner í eins leiks bann vegna þess að hann er kominn með fjögur gul spjöld. Aðeins eitt af þessum fjórum var gult spjald samkvæmt leikreglunum. Konni verður ekki með í útileiknum gegn Sindra eftir hafa fengið grín gult spjald í gærkvöldi. Jónas fékk eitt á Álftanesi fyrir að spyrja – hvað er mikið eftir? –  í lok fyrri hálfleiks í leik sem við vorum að vinna. Það gula spjald telur enn. KSI gerði ekkert í málinu. Dómarinn gerði ekkert í þessu. Hann gæti misst af leik á þessu tímabili vegna þess og öllum er sama. Þetta er standardinn sem við erum að tala um.

Vonandi, þar sem við verðum ekki líklegra liðið í einhverjum leikjum á næstunni, falla einhverjar brjálaðar ákvarðanir okkur í hag.

Þannig að nei, sem lið teljum við okkur ekki eiga í erfiðleikum. Við settum leikinn gegn Vængjum í baksýnisspegilinn í gærkvöldi og sýndum aftur að við erum eitt af bestu liðunum í þessari deild. Markmiðið er að vinna tíu af síðustu ellefu. Við erum nógu góðir til að gera það. Ég vona bara að okkur sé gefinn kostur á því,“ segir Jamie að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir