Annasamt hjá sjúkraflutningamönnum

Mikill erill var í sjúkraflutningum á Norðvesturlandi í júlí og það sem af er ágústmánuði. Er það að mestu leyti vegna fjölmargra umferðaslysa á tímabilinu, flutnings bráðveikra og annarra óhappa. Einnig hefur verið eitthvað um millistofnanaflutninga sem komið hafa til vegna lokana deilda á sjúkrastofnunum yfir sumarmánuðina.

Mikið um umferðaróhöpp í Húnaþingi vestra

Samkvæmt heimasíðu Heilbrigðisstofnunar Vesturlands voru skráð 200 útköll á átta starfsstöðum HVE. Þær starfsstöðvar eru Akranes, Borgarnes, Búðardalur, Grundarfjörður, Hólmavík, Ólafsvík, Stykkishólmur og Hvammstangi. Af þessum 200 útköllum voru 18 sjúkraflutningar frá Hvammstanga í júlímánuði.

Að sögn Gísla Björnssonar, yfirmanns sjúkraflutninga á HVE, voru þetta aðallega umferðarslys, veikindi og önnur óhöpp af ýmsu tagi. „Það hefur líka verið mjög mikið af útköllum í fyrri hluta ágústmánaðar, þar sem mikið hefur verið um umferðarslys.“ segir Gísli.

Sumarið álagstími

Einnig hefur mikið verið að gera í sjúkraflutningum í Austur Húnavatnssýslu. Í júlí voru flutningarnir 19 talsins, þar var að mestu um veikindi og slys að ræða, en millistofnanaflutningar einungis örfá tilfelli, um 2 – 3 flutningar.

Að sögn Einars Óla Fossdal, yfirmanns sjúkraflutninga á HSB, er sumarið alltaf álagstími hjá sjúkraflutingamönnum þar sem umferðarþungi eykst og þar með líkur á umferðaróhöppum. „Heilmikið álag hefur verið hjá okkur það sem af er ágúst, eða 15 flutningar. Þá hefur það gerst nokkrum sinnum að báðir sjúkrabílarnir hafa verið úti á sama tíma að sinna neyðarköllum.“

Mörg slys í Skagafirði

Engin undantekning hefur verið á önnum í sjúkraflutningum í Skagafirði. Þar voru sjúkraflutningar í júlí 35 talsins. Um er að ræða allar gerðir af sjúkraflutningum að sögn Svavars Birgissonar, talsmanns Brunavarna Skagafjarðar. Fjölmörg slys voru á svæðinu í júlí en einnig voru margir bráðveikir. Nokkuð var um millistofnanaflutninga, eða 12 – 13 tilfelli, þar sem deildir eru lokaðar vegna sumarfría og þurfa þá sjúklingar að fá þjónustu á Akureyri.

Aðspurður um hvort finna megi fyrir auknu álagi vegna sparnaðar, segir Svavar: „Það er erfitt að meta það, það koma alltaf lægðir og hæðir. Millistofnanaflutningarnir eru sennilega fleiri vegna sparnaðar en hærri slysatíðni og veikindi, eins og hefur verið í júlí, hefur náttúrulega engin áhrif þar á.“

Fleiri fréttir