Ari Jóhann kosinn formaður SHÍ

Ari Jóhann Sigurðsson, nýr formaður SHÍ.
Ari Jóhann Sigurðsson, nýr formaður SHÍ.

Á aðalfundi Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi, sem haldinn var 22. október var Ari Jóhann Sigurðsson, formaður heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, kosinn formaður samtakanna. Sigurjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, var kosinn í varastjórn.

Gestur fundarins, Guðjón Bragason, gerði grein fyrir helstu málum er snerta starfsvettvang Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og eru til umfjöllunar hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga; fráveitumál og kynnti starfshóp á vegum SÍS og ríkisins, úrgangsmál þ.á.m. urðunarskatt og svo yfir umsagnir og álit samtakanna á boðaðri reglugerð um skráningaskyldu í stað starfleyfisskyldu, auknu flækjustigi og annarra óvissuþátta sem reglugerðardrögin fela í sér og frumvarp til laga um breytingar á viðaukum laga nr. 7/1998.

Bergþór Ólason, annar gestur fundarins, gerði grein fyrir því að hagaðilar eins og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga fengju áheyrn í umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis vegna málsins og taka þurfi upplýstar upplýsingar um framhaldið varandi þetta mál. Hann lagði áherslu á að breytingar á starfsumhverfi HES yrðu að vera til góðs.

Samkvæmt fundargerð tóku fjölmargir fundarmenn til máls og lýstu áhyggjum sínum af þessum breytingum,skorti á raunverulegu samráði, illa ígrunduðum breytingum og ferli við breytingarnar auk þess að ekki hafi verið tekið tillit til ábendinga fagfólks um annmarka á þessari löggjöf.

Eins og segir í inngangi fréttarinnar var Ari Jóhann Sigurðsson, formaður heilbrigðisnefndar Norðurlands vestra, kosinn formaður samtakanna en aðrir í stjórn: Hörður Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis og Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur heldur áfram í stjórn frá fyrra ári. Varamaður var kosinn Sigurjón Þórðarson, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra, og Líf Magneudóttir, formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkurborgar, heldur áfram frá fyrra árið. Ákveðið var að félagsgjald yrði óbreytt kr. 80.000.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga eru tíu talsins og er skipan þeirra ákveðin í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, en þar segir að ekkert sveitarfélag skuli vera án heilbrigðiseftirlits. Í lögunum er kveðið á um að sveitarfélög á hverju starfssvæði skuli kjósa heilbrigðisnefnd eftir sveitarstjórnarkosningar eftir því sem fram kemur á heimasíðu SHÍ.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir