Árskóli og GaV hlutu styrki úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar

Ungir nemendur í Árskóla með spjaldtölvur. Mynd: PF.
Ungir nemendur í Árskóla með spjaldtölvur. Mynd: PF.

Á þriðjudaginn voru afhentir styrkir úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar afhentir fyrir árið 2015. Sjóðnum bárust alls 42 umsóknir í þessari úthlutun, flestar frá grunnskólum. Meðal þeirra skóla sem hlutu styrki voru tveir skóla í Skagafirði, Árskóli og Grunnskólinn austan Vatna.

Virði styrkjanna er samtals ríflega ellefu milljónir króna. Styrkirnir eru í formi tölvubúnaðar og þjálfunar kennara til forritunarkennslu fyrir nemendur. Styrkirnir skiptast að þessu sinni á milli sextán skóla, en auk Árskóla og GaV fengu eftirfarandi úthlutað: Egilsstaðaskóli, Grunnskóli Reyðarfjarðar, Hrafnagilsskóli, Glerárskóli, Brekkuskóli, Hólabrekkuskóli, Hlíðaskóli, Laugalækjaskóli, Árbæjarskóli, Vættaskóli, Rimaskóli, Hagaskóli, Foldaskóli og Grunnskólii Ísafjarðar.

Í skýrslu evrópska skólanetsins (European Schoolnet) frá því í október 2014 kemur fram að forritun er í auknu mæli að verða lykilfærni sem allir skólakrakkar ættu að tileinka sér á einn eða annan hátt. Auk þess sem þessi færni er orðin mjög mikilvæg á vinnumarkaði í hinum ýmsu greinum. Forritun er þar skilgreind sem rökhugsun sem er orðin ein mikilvægasta færni tuttugustu og fyrstu aldarinnar. Í skýrslunni kemur einnig fram að kennarar hafa almennt ekki verið nægilega vel undirbúnir fyrir að forritun sé sett á námskrá.

Í þessari úthlutun munu rúmlega 100 kennarar fá þjálfun til að kenna forritun og verða 75 tölvur afhentar. Þjálfun kennara skiptir miklu máli því þar styður sjóðurinn einna best við innviðina í skólunum þar sem hún ýtir undir áhuga á forritunar- og tæknimenntun innan skólanna auk þess að auka og byggja upp þekkingu. Þörf fyrir góðar tölvur er mikil í skólakerfinu en ekki er óalgengt að skólar landsins notist við 6-8 ára gamlar vélar í kennslu, jafnvel eldri, vélar sem segja má að séu orðnar úreldar.

Þess ber að geta að skólarnir sem fá styrk skuldbinda sig til þess að setja forritun á námsskrá í að minnsta kosti 2 ár. Þessi skuldbinding tryggir að jafnt stúlkur og drengir fái kennslu í forritun sem vonandi skilar sér til lengri tíma í fjölgun kvenna í tæknigeiranum.

Megin hlutverk sjóðsins að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Skólar og sveitarfélög geta sótt um styrki úr sjóðnum til að efla tæknikennslu og notkun á tækni í skólastarfi og fá til þess þjálfun og tækjabúnað, allt eftir þörfum hvers og eins. Þetta er í þriðja sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Árið 2014 var úthlutað styrkjum að verðmæti átta milljónir króna. Samtals hefur því sjóðurinn úthlutað virði tæpra 20 milljóna króna í styrki til skóla árin 2014 og 2015.

Fleiri fréttir