Ásmundur Einar gengur til liðs við Framsókn

Timinn.is segir frá því að Ásmundur Einar Daðason alþingismaður hefur ákveðið að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn. Ásmundur Einar sagði á dögunum skilið við þingflokk VG og hefur síðan þá verið utan flokka.

Hér á eftir fer yfirlýsing Ásmundar Einars Daðasonar vegna inngöngu hans í Framsóknarflokkinn:

"Undirritaður hefur ákveðið að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn. Framsókn hefur á undanförnum tveimur árum tekið mjög jákvæðum breytingum. Undir formennsku Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefur átt sér stað mikil endurnýjun og flokkurinn hefur haldið uppi skynsamlegum málflutningi á mörgum sviðum.

Sem dæmi má nefna að:

* Framsókn hefur staðið með skuldsettum heimilum og barist fyrir almennri leiðréttingu á skuldum heimila og fyrirtækja. Tillögur Framsóknar til lausnar á skuldavandanum hafa verið raunhæfar og skynsamlegar. Almenn leiðrétting skulda hefði haft mikil áhrif þegar kæmi að hagvexti og myndi hindra fólksflótta frá landinu.

* Framsókn hefur sýnt öflugan málflutning þegar kemur að málefnum landsbyggðarinnar og nýsamþykktar tillögur flokksþings Framsóknarmanna byggja auðsjáanlega á þeim grunni.

* Framsókn hefur kynnt ítarlega stefnu í atvinnumálum. Þar er að finna framsæknar lausnir sem byggja á fjölbreytileika og öflugri byggð allt í kringum landið.

* Framsókn hefur barist hart gegn löglausum kröfum Breta, Hollendinga og ESB í Icesave málinu. Með því sýndi flokkurinn mikla stefnufestu og stóð með meirihluta þjóðarinnar frá fyrsta degi.

* Framsókn breytti á síðasta flokksþingi stefnu sinni í Evrópumálum og leggst nú alfarið gegn aðild Íslands að ESB og því aðlögunarferli sem þar er í gangi. Með þessu steig flokkurinn mikilvægt skref. Í ljósi stefnufestu í öðrum málum er ljóst að Framsókn mun á næstunni gegna forystuhlutverki í baráttunni gegn ESB aðild Íslands.

Þær áherslur sem nefndar eru hér að ofan eru í fullu samræmi við yfirlýsingar og loforð sem undirritaður gaf kjósendum í aðdraganda síðustu alþingiskosninga.

Í ljósi ofanritaðs og fleiri þátta hefur undirritaður ákveðið að ganga til liðs við Framsóknarflokkinn."

Ásmundur Einar Daðason alþingismaður

Fleiri fréttir