Aukin rafleiðni í Vestari-Jökulsá

Mynd: PF
Mynd: PF

Aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra segir á Facebooksíðu lögreglunnar á svæðinu og tilkynning hafi borist frá Veðurstofu Íslands um aukna rafleiðni í Vestari-Jökulsá í Skagafirði en upptakakvíslar hennar koma undan Hofsjökli norðanverðum. Vestari-Jökulsá rennur saman við Austari-Jökulsá um átta kílómetra sunnan við mynni Norðurárdals (á móts við Silfrastaði) og mynda þær saman Héraðsvötn. Þjóðvegur 1 milli Varmahlíðar og Akureyrar liggur með Héraðsvötnum á kafla.

Í færslu lögreglunnar kemur fram að ekki sé reiknað með hættu af þessu en líklegt er að vaxi nokkuð í Héraðsvötnum og að þau litist af aurburði. Einhver brennisteinslykt gæti fylgt vatnavöxtunum og ætti fólk að fylgja varúðarorðum almannavarna og dvelja ekki við ána á meðan þetta ástand varir.

 

Fleiri fréttir