Badmintonkrakkar Tindastóls kræktu í marga sigra um síðustu helgi

Katla BH, Emma Katrín Helgadóttir Tindastól, Sigurlaug Siglufirði og Elín BH. Myndir af FB síðu Badmintonsdeildar Tindastóls.
Katla BH, Emma Katrín Helgadóttir Tindastól, Sigurlaug Siglufirði og Elín BH. Myndir af FB síðu Badmintonsdeildar Tindastóls.

Um síðustu helgi tóku fjórir keppendur badmintondeildar Tindastóls þátt í mótum á vegum Badmintonfélags Hafnafjarðar. Í færslu Freyju Rutar Emilsdóttur á Facebooks-síðu deildarinnar segir að á laugardeginum hafi Emma Katrín tekið þátt í Bikarmótinu en þau Ingi Þór, Sigmar Þorri og Júlía Marín í Snillingamótinu daginn eftir.

Júlía Marín Helgadóttir, Ingi Þór Gunnarsson
og Sigmar Þorri Jóhannsson.
Emma keppir í U13A og lenti hún í 2. sæti í sínum riðli en þau Ingi Þór, Sigmar Þorri og Júlía Marín í U11, en þar er ekki spilað um sæti.
„Krakkarnir spiluðu hörkuleiki, kræktu í marga sterka sigra og stóðu sig mjög vel, þau eru félaginu okkar sannarlega til sóma. Alls spiluðu Tindastólskrakkarnir 15 leiki um helgina og náðu í 10 sigra. Frábært fyrsta mót hjá Badmintondeild Tindastóls!“ skrifar Freyja Rut. Jafnframt kemur fram að Badmintonsamband Íslands hafi ákveðið að gefa ungum iðkendum félaganna um land allt sumargjöf nú í lok tímabils og hvetur Freyja Rut því alla til að drífa í að skrá krakkana inn á Nora. „Ef allt verður komið í réttar skorður stefnum við á að halda foreldraæfingu þann 25. maí, þar sem við slúttum vetrinum og kennum foreldrum nokkur góð trix til að geta haldið í við krakkana í útilegu-badmintoni sumarsins.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir