Benedikt og Sara syntu Grettissund
Sjósundkapparnir, Benedikt S. Lafleur og Sarah-Jane Emily Caird syntu svokallað Grettissund laugardaginn 15.ágúst sl. Lagt var af stað kl. 12.15 frá Uppgönguvík og komið í land á diskinum á Reykjarströnd og við Grettislaug, þar sem sundgarpar yljuðu sér eftir sundið.
Sarah-Jane er hraðari sundkona en Benedikt og synti vegalengdina á tæpum 3klst. Benedikt synti á 3 klst og 25 mínútum. Hann misreiknaði örlítið lendingarstað og bar af leið og lenti í vandræðum með lendingu, sem gekk þó að lokum vel en seinkaði ferðinni.
Fylgdarlið í bát var Þorvaldur Steingrímsson, kapteinn um borð, en Runólfur Óskar Steinsson var honum til aðstoðar og Kristján Örn Kristjánsson, einnig ötull sjósundkappi sem hyggst einnig reyna við Drangeyjar- eða Grettissundið, hvatti sundgarpa óspart áfram og leiðbeindi ásamt hinum.
Aðrir komu sjósundköppum til aðstoðar við lendingu og tóku vel á móti þeim í heita pottinum með kaffi og bakkelsi, það voru þau: Hólmfríður Runólfsdóttir, Steinn Ástvaldsson, Þorbjörg Ágústsdóttir og Stefán Reynisson.
Grettissundið er meira krefjandi en Drangeyjarsundið, þar sem það er um átta hundruð metrum lengra, eða 7.5 km, en Drangeyjarsundið er 6.7 km. Talið er að Grettir hafi synt frá þeim stað sem nú nefnist Uppgönguvík, enda til forna nánast eini staðurinn sem hægt var að fara upp í eða úr eyjunni. Sarah-Jane er fyrsta konan til að synda Grettissund.