Bíll sat fastur á nýlögðu grasinu

Vegfarendum á Sauðárkróki sem leið áttu um Skagfirðingabraut í morgun neðan Ártúns brá heldur í brún er þeir sáu bifreið sem sat kirfilega föst á nýtyrfðri grasflöt meðfram gangstétt sem lögð var fyrr í haust. Er engu líkara en þarna hafi einbeittur brotavilji ráðið för.

 

Greinilega má sjá að bílnum hefur verið ekið af götunni út á grasið og upp á gangstétt og reynt að koma honum aftur yfir grasið og upp á götuna á ný en ekki tekist þar sem hann hefur spólað sig niður í jarðveginn. Miklar rigningar í  haust hafa gert jarðveginn gegnsósa og gljúpan og varla fær gangandi fólki hvað þá bílum.

Mikill kurr er í íbúum Sauðárkróks eftir þennan atburð þar sem lengi hefur verið beðið eftir úrbótum á svæðinu með lagningu grassins og göngustígsins. Að sögn Gunnars Péturssonar verkstjóra er þetta ekki í fyrsta sinn sem bílar fara út á grasið með þeim afleiðingum að skemmdir hljótist af með tilheyrandi kostnaði viðgerða.

Eins og sjá má á eftirfarandi myndum er svæðið illa farið og mikil vinna bíður þeirra sem munu lagfæra það.

 

 

Fleiri fréttir