Björgunarsveitir kallaðar til leitar að sjósundmanni
Lögreglan á Sauðárkróki fékk kl: 16:00 laugardag tilkynningu frá fylgdarliði Benediks Lafleur og Söruh-Jane Emily Caird sem þá þreyttu Grettissund, um að maður væri týndur í sjónum. Var haft samband við Landsbjörgu sem ræsti út allar björgunarsveitir í nágrenninu. Leitin var síðan afturkölluð 15 mínútum síðar er fylgdarliðið hafði fundið Benedikt á ný.
-Ég upplifði mig aldrei í neinni hættu. Það sem gerðist var það að Sarah var á undan mér og þeir voru að fylgja henni eftir. Þegar þeir síðan líta aftur eftir mér hafði ég misst sundhetturnar og var því ekki sýnilegur í sjónum. Ég var þarna að synda í miklum straumum og þegar ég lendi í því þá syndi ég mikið í kafi og því er erfiðara að sjá mig í sjónum. Þeir hafa því orðið eitthvað hræddir og kallað út björgunarlið. Ég var hins vegar aldrei í neinni hættu, segir Benedikt Lafleur.
Benedikt bar örlítið af leið á sundi sínu sem varð til þess að hann náði landi um það bil 30 mínútum á eftir Söruh. -Ég kom á land á svokölluðum diski og lenti í erfiðleikum með að komast í land en ég hef gríðarlega mikla reynslu af sjósundi og leit því aldrei svo á að ég væri í hættu, segir Benedikt.
Sigurjón Þórðarson, formaður UMSS, hefur orðið reynslu af sjósundi og segir hann að spurning sé orðið um hvort ekki sé ástæða til þess að taka upp svokallaðar Ermasundsreglur hér á landi. Það er að allir sem stundi sjósund frá Drangey séu með sambærilegan búnað og að fyllsta öryggis sé gætt, meðal annars á þann hátt að einn bátur fylgi hverjum sundmanni. -Þetta er mikið hetjusund og það er tilvalið fyrir sveitarfélagið að veita þeim sem þreytir sundið eftir settum reglum viðurkenningu, svo sem hring eða hálsmen til vitnis um afrekið. Það eru allir möguleikar á því að Drangeyjarsund með þetta gamla sögu geti orðið eitt af þeim sundum sem sjósundsmenn víða um heima vilji þreyta og gæti þá orðið lyftistöng og ýtt undir jákvæða umræðu og ferðaþjónustu í héraði, segir Sigurjón