Búhöldar leysa til sín íbúðir

Byggingafélagið Búhöldar á Sauðárkróki hefur greitt upp lán fjögurra íbúða við Íbúðalánasjóð og leyst þær til sín og þykir það einsdæmi á þeim krepputímum sem nú ríkja á húsnæðismarkaðinum.

-Þegar Íbúðalánasjóður stendur í því þessi misseri að leysa til sín íbúðir þá snúum við dæminu við, segir Þórður Eyjólfsson formaður félagsins sem hefur verið því drjúgur allt frá upphafi. Þórður segir að þetta hafi verið hægt þar sem peningar hafi verið til í sjóði og strjórnin ákvað að fara þessa leið.

Þegar lánin voru fengin hjá Íbúðalánasjóði áður en byggingarframkvæmdir hófust var það skilyrði sett að umsjónarmaður fylgdist með byggingum og fengi greitt fyrir það 450 þúsund á hverja íbúð. Þórður var samþykktur sem sá aðili en peningana setti hann á reikning félagsins sem er sá grunnur sem uppgreiðsluféð byggir á í dag. Þórður viðurkennir að mikil heppni og jafnvel æðri máttarvöld hafi aðstoðað eitthvað, því hann segist hafa einn morgunn hafa vaknað sannfærður um að taka peninginn út af markaðsreikningnum þar sem hann hafði ávaxtast vel og færa yfir á tryggða reikninga. –Fólk var hissa á þessari ráðstöfun hjá mér en mér var ekki haggað, segir Þórður en klukkan fjögur síðdegis hrundi bankinn.

-Við vorum líka heppnir að hætta á réttum tíma, segir Trausti Pálsson stjórnarmaður Búhölda. –Við vorum búnir að kaupa allt efni til að klára þær íbúðir sem eftir var að byggja, þegar Evran fór af stað. Trausti segir að í upphafi hafi þeir haldið að 8-10 íbúðir yrðu byggðar á vegum félagsins en í dag séu þær 44.

Garðar Guðjónsson sem einnig situr í stjórn félagsins segir þetta hafa verið mikið ævintýri og bæði stjórn og félagsmenn hafi unnið mikla sjálfboðavinnu við byggingarnar og sem dæmi þjappað grunna og neglt járn á þök sem gerði íbúðirnar ódýrari en ella. -Fólki líður vel í íbúðunum sem eru einkar þægilegar, segir Garðar enda mikil ásókn í þær.

Fleiri fréttir