Draupnir hættir þátttöku í 1. deild
Sú óvanalega staða er komin upp í 1. deild kvenna að Draupnir frá Akureyri hefur hætt þátttöku í meistaraflokki sem af þeim sökum varð til þess að leikjaplan sumarsins riðlaðist nokkuð en mótanefnd KSÍ hefur gert breytingar á niðurröðun leikja í báðum riðlum 1. deildar kvenna . Tindastóll átti að taka á móti þeim á föstudaginn.
KSÍ brást þannig við að ÍR var flutt úr A-riðli og tekur sæti Draupnis í B-riðli. Af þessum sökum falla niður leikir ÍR í A-riðli. Þar sem ÍR tekur sæti Draupnis og niðurröðun Draupnis miðaðist við staðsetningu þeirra er ljóst að gera þarf breytingar á leikdögum nokkurra leikja hjá ÍR. Verða þær breytingar tilkynntar á næstu dögum.
-Það má eiginlega segja að það sé fjarstæðukennt að svona nokkuð geti gerst á þessum tímapunkti. Tindastóll átti að taka á móti þessu liði nk. föstudag en nú er ljóst að svo verður ekki. KSÍ hefur gripið inní og tekur lið ÍR sæti þeirra í 1 deildinni. Það verða því ÍR-ingar sem mæta á Krókinn nk. föstudag og leika við stelpurnar okkar, segir á heimasíðu Tindastóls.
Þá er bara að bretta upp ermar mæta á völlinn með trommur, lúðra og önnur stemningshljóðfæri og hvetja stelpurnar áfram á móti ÍR-ingum. Leikurinn hefst kl. 20:00 annað kvöld.