„Ég elska þig en nenniru plís að þegja“ / RAGNHEIÐUR PETRA

Ragnheiður Petra. MYND AÐSEND
Ragnheiður Petra. MYND AÐSEND

Ragnheiður Petra Óladóttir er fædd og uppalin á Sauðárkróki, dóttir Þórhildar og Óla Péturs Bolla. Petra er fædd árið 1996 og man ekki hvenær hún byrjaði að syngja en trúði því meira að segja lengi vel að hún gæti ekki sungið.

Sumarið 2015 var Petra að vinna á hestabúgarði í V- Húnavatnssýslu ásamt stelpu frá Hollandi. „Við byrjuðum alltaf daginn á því að moka undan hrossunum og suma daga virkaði útvarpið ekki. „Þú ert með fallega rödd„ heyrði ég vinkonu mína allt í einu segja, þá hafði ég verið að raula eitthvað upp úr Sound of Music. Ég var nýbúin að sjá myndina í fyrsta sinn og var ég alveg dolfallin af henni. Ég þakkaði vinkonu minni um hæl og þegar leið á sumarið sagði hún við mig; „Petra, ég elska þig en nennir þú plís að þegja?” Þá ákvað Petra að gera eitthvað í þessu þegar hún fann að hún ætti mikið auðveldara að syngja þessa tegund tónlistar en það sem verið var að spila í útvarpinu, svo hana langaði að fara í nokkra söngtíma.

Petra hringdi í Tónlistarskólann sem tjáði henni að það væri engin söngdeild á Króknum, sem Petra segir aðra og lengri umræðu. Henni var þó bent á að hringja í Helgu Rós Indriðadóttur, sem hún og gerði. „Ég man hvað ég var stressuð að hringja en ég hlæ alltaf þegar ég hugsa til baka því hún var að smala þegar ég spurðist fyrir hvort hún væri til í að taka mig í nokkra söngtíma. Helga á það alfarið skuldlaust að ég hélt áfram. Hún ræktaði þetta alveg í mér, bauð mér í Kvennakórinn Sóldís sem hún stjórnar, og svo seinna meir að syngja einsöng með sama kór og áður en ég vissi var ég farin suður til að halda áfram að læra.“ í Söngskóla Sigurðar Demetz undir handleiðslu Diddúar, þaðan fór Petra í Listaháskólann og kláraði þar B.Mus. í söng og lærði þar hjá Hönnu Dóru Sturludóttur, Kristni Sigmundssyni og Dísellu Lárusdóttur. „Svo er ég á leiðinni til Berlínar í svona bland af skóla og óperustudio-i,“ segir Petra.

Helstu tónlistarafrek: Ætli það sé ekki bara það að byrja að syngja. Það er svo margt skemmtilegt sem ég hef gert sem ég tel einnig til afreka, en þegar ég horfi til baka þá er ég stoltust yfir því að byrja og þora. Það er í sjálfu sér stórt afrek.

Hvað er á döfinni? Að fara til Berlínar í áframhaldandi óperunám.

Hvaða lag varstu að hlusta á? NISSAN ALTIMA eftir Doechii.

Uppáhalds tónlistartímabil? Það mun vera rómantíska tímabilið(u.þ.b. 1780 - 1910). Stór hljómsveit, sjöundarhljómar og rómantík. Gerist ekki betra.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Það er mikill dagamunur á því, en er mikið búin að hlusta á EDM tónlist síðustu daga.

Hvaða lag er í uppáhaldi akkúrat núna? Er búin að vera að hlusta á New Bottega eftir Azelia Banks og Torrent Foot vandræðalega mikið þessa dagana.

Ef þú gætir valið þér söngvara til að syngja með dúett, hvaða söngvara vildirðu syngja með og hvað lag tækjuð þið? Erfið spurning! Það er eitthvað heillandi við tilhugsunina að syngja Barcarolle úr Ævintýri Hoffmans með Jessye Norman. Það er svo margt „iconic“ við þessa konu, ef mér leyfist að sletta aðeins.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Mamma setti alltaf á dúndur tónlist þegar hún var að taka til. Queen, Pink Floyd og Boney M standa þar mest upp úr.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Minnir að það hafi verið Ladda diskur. Hvaða græjur varstu þá með? Græjurnar hennar mömmu, þangað til að hún gafst upp og gaf mér og systur minni vasadiskó.

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Minn hinsti dans eftir Pál Óskar.

Hvaða lag fær þig til að skipta um stöð eða slökkva á útvarpinu? Glaðasti hundur í heimi og ég er ekki lengi að skipta.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Nokkur Abba lög, BlazRoca og Séra Bjössi ættu að koma öllum í gang. Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Sunday Kind of Love , The Girl from Ipanema, Baby I’m Yours . Eitthvað í þá áttina

Hvaða Bítlalag hefðir þú viljað hafa samið? Come Together allan daginn. Vibeið í heild sinni er bara geggjað.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Í fullkomnum aðstæðum færi ég með vinum mínum úr söngdeildinni í LHÍ til New York á Met til að sjá La Traviata. Nadine Sierra, Benjamin Bernheim, Gerald Finley, Isabel Leonard þurfa að vera í sýningunni. Umræðurnar eftir sýninguna yrðu stórkostlegar.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Það sem var í spilun á FM957.

Er eitthvað lag sem fær þig til að tárast eða snertir streng í hjartanu? Mon coeur s’ouvre a ta voix og o du, mein holder Abendstern græta mig alltaf. Pluto Projector eftir Rex Orange Country nær mér líka.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Julie Andrews. Mamma átti Mary Poppins upptekna á spólu og ég held að þessi tiltekna spóla hafi verið spiluð oft í viku þegar ég var krakki. Það mætti halda að hún hafi verið átrúnaðargoðið mitt og er það eiginlega ennþá.

Hvaða plata hefur skipt mestu máli í þínu lífi og hvers vegna? Queen Greatest Hits II . Mamma átti svo mikið af geisladiskum og þessi var einn þeirra. Ég var ekki komin í skóla þegar ég var farin að setja hann í græjurnar hennar og hlusta, og er ég búin að hlusta endalaust á hann í gegnum barnæskuna, unglingsárin og nú þegar ég er komin á fullorðinsaldurinn. Mér finnst það bara svo dýrmætt.

 

 

 

 

 

 

 

 

Fleiri fréttir