Ekki fyrir þá sem eru með sápugenið | Matgæðingar Feykis

Berglind og Guðmundur ásamt börnum á Spáni. MYND AÐSEND
Berglind og Guðmundur ásamt börnum á Spáni. MYND AÐSEND

Matgæðingar vikunnar í tbl. 27  voru fornleifafræðingarnir Berglind Þorsteinsdóttir, safnstjóri Byggðasafns Skagfirðinga, og Guðmundur Stefán Sigurðarson, minjavörður Norðurlands vestra. Þegar þessi þáttur fór í birtingu í blaðinu voru þau stödd erlendis í sumarfríi og var því ákveðið að vera á alþjóðlegu nótunum hvað varðar uppskriftir. „Við fjölskyldan erum afar hrifin af fersku kóríander, þessar uppskriftir henta því ekki þeim sem eru með hið svokallaða sápugen, þ.e. þeim sem finnst kóríander smakkast eins og sápa,“ segja Berglind og Gummi.

Fyrsta uppskrifin er af karabísku fiskitakó með hrikalega góðu hrásalati. Hana uppgötvuðum við í september 2020 þegar við héldum fyrsta alþjóðlega kvöldið okkar fjölskyldunnar. Hugmyndin að því að halda alþjóðlegt kvöld kviknaði þegar okkur vantaði tilbreytingu í Covid og hví ekki að efna til menningarkvölds þar sem við kynntum okkur menningu annarra landa, sögu, tónlist og ekki síst matarmenningu þar sem við fórum í einskonar ferðalag fyrir bragðlaukana. Kvöldin voru haldin mánaðarlega og var landið valið með slembiúrtaki, nánar tiltekið „Random country generator“ á netinu. Eftir smá rannsóknarvinnu voru valdar þrjár uppskriftir, frá því landi sem alnetið valdi fyrir okkur, sem við elduðum saman á meðan við hlustuðum á tónlist frá viðkomandi landi. Krakkarnir höfðu það hlutverk að rannsaka viðkomuland okkar fyrir kvöldið og fræða okkur hin um land og þjóð. Stundum gat tekið smá  tíma að finna uppskriftir sem voru gerlegar, líkt og í tilfelli Bahama eyja, það er t.d. ekki svo einfalt að finna hráefni í skjaldbökusúpu á stór Skagafjarðarsvæðinu. Þar af leiðandi varð fiskitakó fyrir valinu og er það ein af þeim uppskriftum sem standa upp úr frá alþjóðlegu kvöldunum okkar.

RÉTTUR 1
Karabískt fiskitakó

    450 g hvítur fiskur að eigin vali (gott að bæta rækjum líka við)
    2 tsk. ólífuolía
    8 stk 15 cm hveititortillur (hinir metnaðarfyllstu geta steikt sjálfir brauð, hrikalega gott)
    1 avókadó, niðurskorið (annað grænmeti eftir smekk)

Kryddblanda:
    1 tsk. chiliduft
    1 tsk. salt
    1 tsk. hvítlaukur (ferskur eða úr krukku)
    1 tsk. cummin
    safi úr 1 límónu (e. lime)

Hrásalat:
    3 bollar rifin gulrófa (einnig hægt að nota eða blanda við hvít- eða rauðkál og rifnar gulrætur) 
    ⅓ bolli niðurskorið kóríander
    ¼ bolli grísk jógúrt
    2 msk. majónes
    kreista af límónusafa (smakka til)
    smá hunang
    salt og grófmalaður svartur
    pipar – eftir smekk

Aðferð: Hrærið saman chilidufti, salti, hvítlauk og cummeni. Nuddaðu ólífuolíu báðum megin á fiskinn og stráið kryddblöndunni. Kreistu ferskan límónusafa yfir. Ýmist hægt að setja í airfryer eða baka í ofni á 200°C (forhitað) í 10–14 mínútur. Valkvætt: grillið síðustu tvær mínúturnar til að fá stökkara yfirborð. Á meðan fiskurinn eldast, útbúðu hrásalatið: hrærðu saman grískri jógúrt, majonesi, límónusafa, hunangi og salt og pipar. Blandaðu saman við gulrófu, rifið kál og kóríander. Settu til hliðar. Notaðu gaffal til að rífa fiskinn varlega í bita. Berðu fram í tortillum með hrásalati, avókadó og öðru salati eftir smekk. Berðu fram með auka kóríander og límónum til að kreista yfir.

RÉTTUR 2
Karahi lambaréttur

Hin uppskriftin er búin að vera í miklu uppáhaldi undanfarin ár. Hún er einnig á alþjóðlegu nótunum en þessa uppskrift kynntu vinir okkar Jóhann Axel Guðmundsson og Mariko Morita fyrir okkur og er Karahi lambaréttur – varist, rétturinn er verulega ánetjandi!

    125 ml olía eða smjör
    ½ kg lamb (með beini ef mögulegt)
    2 dósir maukaðir tómatar í dós (mælium með tegundinni Mutti, einnig hægt að saxa 5 tómata mjög smátt)
    1 hvítlaukur, saxaður
    1 bútur af engifer, þumalstærð, saxaður
    2 tsk. salt (eða eftir smekk)
    2 tsk. paprikuduft
    1½ tsk. svartur pipar
    1 tsk. chiliflögur (eða duft)
    ½ tsk. cummin duft
    ½ tsk. kóríanderduft
    1–2 grænn jalapeno (ég set sneiðarnar heilar útí, sýð með og veiði síðan uppúr)
    ½ búnt kóríander, saxað
    engifer skorið í þunna strimla (eftir smekk)

Aðferð: Hitaðu olíu eða smjör á pönnu, bættu lambinu út í og steiktu á háum hita, hrærðu stöðugt þar til kjötið hefur breytt um lit. Bættu við söxuðum
hvítlauk og engifer og steiktu í 1–2 mínútur. Passaðu að hvítlaukurinn og engiferið verði ekki of brúnt. Bættu við öllum kryddunum og 250–375 ml vatn. Láttu suðuna koma upp, lækkaðu síðan hitann og settu lok á. Láttu malla í 1 klst. Athugaðu reglulega að það sé nóg vatn í pönnunni – bættu við vatni ef þarf. Eftir klukkustund á kjötið að vera næstum tilbúið og vatnið að mestu gufað upp. Ef mikið vatn er enn eftir, hækkaðu hitann og láttu það sjóða án loks þar til vökvinn er nánast horfinn. Hækkaðu hitann og bættu tómatmauki út í, hrærðu stöðugt og skafðu botninn. Tómatarnir gefa frá sér mikinn vökva. Haltu áfram að hræra þar til sósan verður örlítið þykkari. Þegar sósan hefur þykknað og olía fer að skiljast frá, bættu við helmingnum af saxaða kóríandernum og jalapeno sneiðunum. Lækkaðu hitann og láttu malla án loks í fimm mínútur. Áður en borið er fram, skreyttu með afganginum af kóríander. Borið fram með soðnum hrísgrjónum og engiferstrimlum.

Takk fyrir okkur og njótið!

Berglind og Guðmundur skoruðu á Jóhann Axel Guðmundsson og Mariko Morita.

Fleiri fréttir