Ekki gott að byggja á sandi

Kaffi Krókur rifinn.

-Það er aldrei gott að byggja hús á sandi, segir Sigurpáll Aðalsteinsson, eigandi Kaffi Króks, aðspurður um hvort rétt sé að húsið hafi verið rifið í óþökk Húsfriðunarnefndar.

Sigurpáll segir að málið snúist í raun um það að Húsfriðunarnefnd hafi verið búin að gefa leyfi á niðurrif á veggjum nema umræddan suðurvegg. Þegar farið hafi verið að rífa húsið hafi síðan komið í ljós að undirstöður suðurveggsins hafi verið handónýtar og þá hafi hann látið arkitekt hússins vita og rifið allt til þess að geta lagað botnstykkið og byggt húsið upp á nýjan leik. -Suðurveggurinn var bara miklu verr farinn en menn héldu og við mátum það svo að það væri ekki um annað að ræða en láta hann fara líka og byggja hið nýja hús á traustum grunni.

Aðspurður um hvort framkvæmdin hafi áhrif á styrk frá Húsafriðunarnefnd segist Sigurpáll ekki vita það. -Það eru tvær leiðir færar. Annars vegar að óska eftir áframhaldandi samstarfi við Húsafriðunarnefnd um uppbyggingu húsins og hins vega að afþakka styrk frá þeim. Ég er bara ekki búinn að ákveða hvora leiðina ég fer. Stefnan var að gera húsið fokhelt í þessum áfanga og við stefnum ótrauðir, það er verktakinn Friðrik Jónsson ehf, og ég á að gangi eftir.

Fleiri fréttir