Fimmti sigurleikurinn í röð í Síkinu

Tindastóll og Haukar mættust í Síkinu í gærkvöldi og buðu liðin upp á skemmtilegan leik. Stólarnir áttu skínandi leik en voru engu að síður nálægt því að henda sigrinum frá sér í lokin, voru slegnir út af laginu eftir að Rikki fékk olnboga eins leikmanns Hauka í höfuðið þannig að blóðið fossaði úr kappanum. Þá var um 15 stiga munur og innan við 5 mínútur til leiksloka. Haukarnir minnkuðu forskotið í 3 stig en Stólarnir náðu að koma fyrir lekann á lokamínútunni og tryggðu sér góðan sigur, 95-88.

Stólarnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust í 8-0. Varnarleikur liðsins var góður og áttu Haukar í vandræðum í byrjun en náðu síðan upp ágætri vörn sjálfir og jöfnuðu 15-15 en eftir fyrsta leikhluta var staðan hnífjöfn 20-20. Tindastólsmenn spiluðu annan leikhluta mjög vel, Fain og Helgi Rafn fóru fyrir varnarleik Stólanna og stálu boltanum hvað eftir annað. Um miðjan leikhlutann var staðan orðin 30-22 og Haukar aðeins gert eina körfu í leikhlutanum. Munurinn hélst fram að hléi en þá var staðan 42-34 fyrir Stólana.

Haukarnir minnkuðu muninn í upphafi þriðja leikhluta en Hayward Fain var í miklum ham og sá til þess að munurinn um miðan leikhlutann var orðinn 15 stig og áhorfendur orðnir nokkuð brattir, enda Stólarnir á góðu skriði. Að loknum þriðja leikhluta var staðan 70-58 og þegar um 5 mínútur voru til leiksloka var munurinn orðinn 16 stig, 84-68. Stuttu síðar varð Rikki fyrir þessu ógurlega höggi og hljóp alblóðugur og bálvondur inn í búningsherbergi. Einhvernveginn taldist þetta ekki vera villa og Haukum dæmdur boltinn og eftir nokkra töf á leiknum meðan dúkurinn var þrifinn gengu Haukar á lagið og fóru að raða niður körfum á meðan Stólarnir voru einbeitingarlausir og ráðalitlir gegn svæðisvörn Hauka. Þegar mínúta var eftir var staðan 87-84 en þá tók Borse leikhlé og Stólarnir komu tvíefldir til leiks eftir það, náðu upp sterkri vörn sem Haukunum gekk illa að komast í gegnum og til að tíminn hlypi ekki frá gestunum urðu þeir að taka upp á því að brjóta á Stólunum sem voru öruggir á vítalínunni og tryggðu sér á endanum sigur, 94-87.

Lið Tindastóls átti fínan leik í gærkvöldi og nánast saman hvar borið er niður, allir stóðu fyrir sínu. Fain var flottur í leiknum, gerði 28 stig og tók 8 fráköst. Cunningham átti sömuleiðis flottan leik, gerði 20 stig og átti 6 stoðsendingar. Rikki spilaði flotta vörn og var traustur í skotunum að venju. Svavar og Helgi Rafn voru sterkir og þá stóð Kita fyrir sínu og var sérstaklega öflugur á lokamínútunum þegar hann stala boltanum í tvígang og var öruggur af vítalínunni. Helgi Freyr setti niður 10 stig og skoraði reyndar úr öllum skotum sínum í leiknum, einu innan teigs, tveimur fyrir utan 3ja stiga línu og tveimur vítaskotum. Yngri og óreyndari leikmenn Stólanna fengu reyndar lítið að spreyta sig enda leikurinn mikilvægur og allan tímann spennandi og skemmtilegur. Hjá Haukum var Robinson öflugur, gerði 22 stig og tók 8 fráköst en tapaði boltanum reyndar 8 sinnum en Stólarnir unnu boltann margoft með flottum varnarleik. Þá voru Inge, Sveinn Ómar og Haukur drjúgir hjá Haukum og Örn Sigurðarson gerði líkt og Helgi Freyr 10 stig og misnotaði ekki eitt einasta skot.

Þetta var fimmti sigurleikur Tindastóls í röð á heimavelli og er liðið nú með 12 stig í 6.-7. sæti, með jafnmörg stig og Haukar. Nú á fimmtudaginn mæta Stólarnir Grindvíkingum syðra.

Stig Tindastóls: Fain 28, Cunningham 20, Kitanovic 15, Rikki 13, Helgi Freyr 10, Helgi Rafn 5 og Svavar 4.

Fleiri fréttir