Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra hafinn, vonast til þess að ná að halda úti eðlilegu skólastarfi

Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra (FNV) á Sauðárkróki var settur í byrjun vikunnar og er skólasókn nú svipuð og hefur verið undanfarin ár samkvæmt skólastjórnendum. Rúmlega 500 nemendur stunda nám við skólann, þar af ríflega 200 í fjarnámi. Skólahald hófst með hefðbundnum hætti og munu nemendur stunda staðnám í öllum greinum á meðan stætt verður.

Undantekning var gerð fyrir fjarlægðartakmarkanir í skólum og í staðinn fyrir að styðjast við 2 m regluna þá er miðað við að 1 metri hið minnsta sé á milli einstaklinga án þess að notast við smitvarnir. Í FNV hefur verið gripið til margskonar sóttvarna sem má lesa um hér sem hefur m.a. áhrif á nýtingu á skólastofum og umgengnishætti nemenda og starfsfólks sem og fjölda nemenda í áföngum. Vonast er til að þessar ráðstafanir dugi til að ekki þurfi að hverfa aftur til fjarkennslu eins og gert var í vor. Gekk það fyrirkomulag þó vel fyrir sig. 

Nýjungar sem í boði eru þetta skólaárið eru veirufræði og leiklist og spennandi verður að sjá hversu vinsælir þeir áfangar verða. Þrír hópar fullorðinna stunda helgarnám í húsasmíði og tveir hópar í rafvirkjun. Um 100 nemendur eru í sjúkraliðanámi. Í vor verður boðið upp á helgarnám í húsasmíði og húsgagnasmíði ásamt námi fyrir iðnmeistara. 

Nemendafélag skólans er í óða önn að undirbúa félagslíf skólans innan þeirra marka sem sóttvarnir leyfa og er það engan veginn einfalt mál. Nemendur eru þó bjartsýnir á að skólahaldið verði nokkurn veginn með hefðbundnum hætti. 

Þess má geta að skólinn auglýsir nú eftir starfskrafti í FABLAB smiðju skólans. 

/SHV

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir