Fjölmenn hesthúsvígsla á Syðra-Skörðugili

Það var margt um manninn að Syðra-Skörðugili s.l. laugardag er þau Elvar og Fjóla buðu gestum og gangandi að líta í nýja hesthúsið á staðnum og þiggja veitingar.

Húsið rúmar nú 36 hross.  Þar af eru fjórar tveggja hesta stíur en rest einstaklingsstíur og af þeim eru 9 stóðhestastíur.  -Húsið hefur tekið miklum breytingum og erum við afar ánægð með árángurinn, segir Fjóla.  -Gaman var hvað það voru margir sem létu sjá sig og var dagurinn hinn skemmtilegasti og vil ég þakka öllum þeim sem sáu sér fært að mæta og taka þátt í þessum tímamótum með okkur kærlega fyrir.

Hesthúsið var upphaflega byggt árið 1974 af þeim hjónum Einari og Ásdísi.  Hefur það þjónað vel sínum tilgangi síðan en komið var að endurnýjun og var ákveðið sl sumar að fara í veigamiklar endurbætur.  Ráðist var í að brjóta og moka út mörgum tonnum af steypu og járni í júlímánuði.  Fyrstu steypur voru teknar í júlí og svo aftur í ágúst.  Í október og nóvember hafa síðan framkvæmdir verið í fullu gangi.  Steyptir voru nýjir fóðurgangar og flórar og settar hitalagnir í allt.  Steyptar voru framhliðar og innréttingar úr ryðfríu stáli sem smíðaðar voru af Vélaverkstæði KS settar upp.

Fleiri fréttir