Fjórða ferðin hafin
Þær Þuríður Harpa og Auður Aðalsteinsdóttir, sjúkraþjálfari og aðstoðarkona hennar í ferðinni, eru nú komnar til Delhí þar sem þær munu dvelja næsta mánuðinn. Við gefum Þuríði orðið; "Við mættum í Leifsstöð kl. hálfsjö að morgni 15. jan. við sjúkraþjálfa en ég er svo heppin að fá hana með mér í þessa ferð. Ferðin byrjaði vel þar sem við fengum að ferðast á Saga Class, eins og við vorum nú glaðar með það þá spillir þetta manni um leið og hér eftir verður erfitt að bóka flug á öðru farrrými. Allt gekk ótrúlega vel á flugvellinum í London og fengum við ágætan eldri fylgdarmann sem fór með okkur örugglega í gegn. Eftir sex tíma bið þar gátum við tékkað inn til Delhí og eins og áður fórum við auðveldlega og án nokkurra vandkvæða í gegn. Það voru þreyttar konur sem komu sér fyrir í stóru Boeing þotunni ásamt mörghundruð öðrum farþegum. Við náðum hvorug að klára eina bíómynd áður en við duttum útaf og vöknuðum ekki aftur fyrr en farið var að undirbúa lendinguna í Delhí. Við fórum í gegnum nýju flugstöðina á Indira Gandhi flugvellinum og hún er öll teppalögð. Allt gekk eins og í sögu og hvorki týndist taska né hjólastóll. Það var svoldið notalegt að sjá andlitið á einum vaktmanninum á Nu teck þegar við komum útfyrir – ég þekki orðið andlitin þó ég muni nú fæst nöfnin. Ég fékk sama herbergi og áður sem var bara fínt. Sjúkraþjálfa er enn að jafna sig á aðbúnaði, hélt kannski að herbergi væri aðeins notalegra en allt var til staðar sem við þurftum þannig að við lifum hér góðu lífi án lúxuss en vel birgar af eðalfæði versluðu á íslenskri grund. Eftir að hafa borðað í hádeginu bæði íslenskt og indverskt lögðum við stöllur okkur í nær þrjá tíma þá var ákveðið að sækja góss sem mamma hafði fengið að geyma á hótelinu við hliðina og kíkja eftir brauði á Green Park markaðnum. Þetta var frumraun sjúkraþjálfu á götum Delhí með farþega í hjólastól. Eftir að hafa komið okkur heilu og höldnu í gegnum umferð og flaut var hún nokk viss um að hún myndi ekki halda geðheilsunni lengi ef hún þyrfti að búa við svona umferðarmenningu heima á Íslandi. Heim komumst við aftur með brauðið og búnar að kíkja í saríverslanir á Green Park en þar fást dýrindis efni sem gaman er að skoða. Kvöldmaturinn var kjúklingur í vefju og með honum fylgdu 2 sítrónur í eftirrétt, við ákváðum að skippa eftirréttinum enda nóg til af súkkulaði sem höfðar heldur meira til okkar en sítrónur, allavega sem eftirréttur. Þó afskaplega gott væri að fara í sturtu þá þurfti ég virkilega að bíta á jaxlinn áður en ég lét hrollkalda bununa berja á mér, því miður var ekkert heitt vatn að fá svo það kalda var bara látið duga, við reynum að fá þetta lagað á morgun. Þrátt fyrir að rafmagnsofninn sé á fullum straumi hér í herberginu er samt svalt enda blæs inn meðfram svalahurðinni eiginlega allann hringinn – Sjúkraþjálfa mætir kuldanum af mikilli skynsemi, hún hafði vit á að vera með ullarsíðbrók og síðermabol með sér sem og húfu og vettlinga. Ég hinsvegar norpa hér uppi í rúmi í síðerma náttserk með flísteppi úr Rúmfó yfir herðunum, og líklega aldrei verið jafnvel klædd hér, fyrir nóttina áður.