Fjórir nýir reiðkennarar á Hólum

Mynd: Hólar.is
Mynd: Hólar.is

„Það eru nýir og breyttir tímar á svo margan hátt, ekki síst hér á Hólum,“ segir í færslu á Facebooksíðu Háskólans á Hólum en nýverið voru ráðnir þangað fjórir nýir reiðkennarar, í þrjár lausar stöður. Fyrir eru nokkrir reiðkennarar í hlutastarfi svo fleiri einstaklingar munu koma að reiðkennslunni. „Við lítum á þennan fjölbreytileika bæði sem áskorun og jafnframt sem tækifæri á þessum vettvangi og þá sérstaklega vegna þess að nú bætast við einstaklingar með mikilvæga og fjölbreytta styrkleika í hóp reiðkennara við háskólann. Hestamennskan er margslungin og af því leiti erum við heppin að fá þennan flotta hóp til starfa,“ segir í færslunni.

Á síðunni eru reiðkennaralið skólans kynnt:

Hrafnhildur Helga Guðmundsdóttir útskrifaðist frá Hólum fyrir fimm árum með BS í reiðmennsku og reiðkennslu. Síðan þá hefur hún m.a. unnið sjálfstætt við reiðkennslu, tamningar og þjálfun, séð um hestafjölmiðla svo sem Isibless og kennt á hestabraut í Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ. Enn fremur hefur hún menntað sig, meðal annars í markaðsfræðum, á Íslandi, í Bandaríkjunum og í Kína. Eins og sjá má af þessari upptalningu er Hrafnhildur framtakssöm og afkastamikil. og tengingin við markaðsfræðina mun nýtast í námskeiðinu „Rekstri fyrirtækja í hestamennsku“ en Hrafnhildur er einnig umsjónarkennari í „Þjálfun I“ á haustönn.

Ísólfur Líndal Þórisson er loksins kominn aftur. Hann útskrifaðist af reiðkennarabraut 2005 og vann sem reiðkennari á Hólum 2007-2010. Síðan þá hefur hann byggt upp hestamiðstöðina Sindrastaði og verið mjög virkur þjálfari, keppandi og reiðkennari, ásamt því að hafa gefið út kennsluefni. Ísólfur var meðal annars gæðingaknapi ársins 2013 og var sigurvegari í Meistaradeild KS 2019. Ísólfur mun kenna „Þjálfun I“ og „Þjálfun reiðhestsins I“ á haustönn.

Konráð Valur Sveinsson er nýútskrifaður frá Háskólanum á Hólum, með BS í reiðmennsku og reiðkennslu. Hann er landsliðsknapi í hestaíþróttum og hefur náð framúrskarandi árangri, sérstaklega í skeiðgreinum þar sem hann er margfaldur heimsmeistari, Íslandsmeistari og heimsmethafi. Á haustönn mun Konráð kenna í námskeiðunum „Reiðmennsku I“ og „Þjálfun reiðhestsins I”.

Steinar Sigurbjörnsson er nýkominn heim til Íslands eftir margra ára dvöl í Bandaríkjunum þar sem hann hefur starfað sem reiðkennari og þjálfari. Hann hefur gefið út kennsluefni og byggt upp þjálfunarkerfi sem nálgast hestinn með áherslu á að bæta líkamsstöðu hans og sjálfstraust. Steinar mun kenna „Reiðmennsku III” á haustönn.

Auk framantalinna mun Bergrún Ingólfsdóttir verða með okkur, eins og í fyrra. Hún sér um námskeiðin „Knapaþjálfun“ sem koma við sögu á öllum námsárum í Hestafræðideild. Bergrún er með BS í reiðmennsku og reiðkennslu og er þar að auki menntaður einkaþjálfari. Hún rekur tamningastöð á Blönduósi, jafnframt því að kenna, keppa og sýna hross.

Seinna í vetur mun Barbara Wenzl koma til liðs við okkur og kenna „Reiðmennsku og þjálfun kynbótahrossa“ ásamt Þórarni Eymundssyni. Barbara rekur tamningastöð í Bæ á Höfðaströnd og hefur mikla reynslu af þjálfun hrossa, og hefur einmitt staðið sig afskaplega vel á kynbótabrautinni.

Aðrir fastráðnir reiðkennarar eru Mette Mannseth, Sigurður Heiðar Birgisson, Þorsteinn Björnsson og Þórarinn Eymundsson. Þar að auki verða þeir Pétur Örn Sveinsson og Þórir Ísólfsson með okkur í tamninganámskeiðinu í haust, eins og oft áður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir