Fyrsti sigur Stólastúlkna í Pepsi Max og hann var sanngjarn

Stólastúlkur fagna fyrra marki sínu í leiknum sem María Dögg gerði. MYND: ÓAB
Stólastúlkur fagna fyrra marki sínu í leiknum sem María Dögg gerði. MYND: ÓAB

Hversu gaman ætli það sé að vinna leik í Pepsi Max deildinni? Það er örugglega eitthvað sem Stólastúlkur hafa verið búnar að láta sig dreyma um lengi og í dag – í öðrum leik Tindastóls í Pepsi Max – rættist draumurinn. Það voru Blikabanarnir í liði ÍBV sem mættu á Krókinn og efalaust voru Eyjastúlkur fullar af sjálfstrausti eftir sigurinn á Íslandsmeisturum Breiðabliks í síðustu umferð. En þær komust lítt áleiðis í dag gegn heilsteyptu og einbeittu Tindastólsliði sem ætlaði sér stigin þrjú frá fyrstu mínútu. Lokatölur 2-1 fyrir Tindastól og sigurinn var sanngjarn.

Það var norðangola, sól en hitastigin spöruð á Sauðárkróksvelli í dag en ágætar aðstæður til að spila fótbolta. Lið Tindastóls náði ágætri sókn strax í byrjun en síðan var leikurinn í jafnvægi en gestirnir voru aldrei líklegir og vörn og miðja Tindastóls var á táberginu. Murr, Hugrún og Aldís voru síðan gríðarlega vinnusamar og áræðnar frammi. Fyrsta mark leiksins kom á 31. mínútu en Murr var fyrst á boltann eftir aukaspyrnu inn á teig frá Jackie, boltinn barst til Maríu Daggar sem þrumaði boltanum í mark gestanna. Lið ÍBV náði ekki að skapa sér nein færi fram að hléi og voru helst í að ná athygli dómarans fyrir mótmæli og munnsöfnuð sem Króksarar eru ekki vanir.

Stólastúlkur mættu gríðarlega beittar til leiks í síðari hálfleik, staðráðnar í að bæta við marki. Nú réði vörn ÍBV ekkert við Murr sem var eins og eimreið upp völlinn hvað eftir annað. Á 51. mínútu komst hún framhjá Liana Hinds og inn á vítateiginn vinstra megin, náði bylmingsskoti á markið sem Auður í marki ÍBV hálfvarði en boltinn barst á Hugrúnu sem gat ekki annað en skorað fyrir opnu marki. Stólastúlkur héldu áfram að sækja og eftir um klukkutíma leik skoraði Aldís María frábært mark eftir laglega sókn en hún reyndist rangstæð. Eftir þetta datt krafturinn aðeins úr heimastúlkum, þær færðust aftar á völlinn og gekk verr að finna samherja í fætur þegar boltinn vannst. Clara Sigurðardóttir minnkaði muninn á 79. mínútu með laglegu marki sem virtist þó með heppnisstimpilinn á sér. Eftir þetta reyndu gestirnir hvað þeir gátu til að jafna en gekk sem fyrr afleitlega að skapa sér færi. Þær fengu nokkrar aukaspyrnur sem sköpuðu litla hættu en besta færi þeirra fékk Kristjana Sigurz sem slapp inn fyrir vörn Tindastóls á 85. mínútu en renndi boltanum framhjá Amber og markinu.

2-1 sigur því staðreynd og Stólastúlkur fögnuðu fyrsta sigrinum í efstu deild innilega en liðinu var spáð afleitu gengi í sumar. Lið Tindastóls er með fjögur stig að loknum tveimur leikjum en mæta Íslandsmeisturum Breiðabliks í næstu umferð fyrir sunnan.

Lið Tindastóls átti góðan leik í dag og allar stelpurnar gáfu allt í leikinn. Þetta var liðsheild. Vörnin var, líkt og í fyrsta leiknum gegn Þrótti, hreint frábær og nú gekk liðinu betur að halda í boltann og koma honum í fætur en ekki bara fram. Bryndís og Kristrún hafa verið frábærar og Laufey og María Dögg voru með sína andstæðinga í rassvasanum í dag. Á bak við þær var Amber öryggið uppmálað, hugrökk og yfirveguð. Bergljót var gríðarlega dugleg fyrir framan vörnina og var eins og ryksuga á yfirsnúningi. Jackie virðist vera að hrista af sér vormeiðslin en hún og Dom halda boltanum vel. Aldís var lífleg og Hugrún er bara fantagóð. Murr var frábær í dag og allar hættulegustu sóknir Stólastúlkna komu í gegnum hennar vinnu. Guðrún Jenný, Sylvía, Hallgerður og Krista Sól komu inn á þegar þreyta fór að segja til sín og stóðu sig vel. Gestirnir náðu sér ekki á strik og kannski vegna þess að það var ekkert gefins í dag - lið Tindastóls einfaldega betra.

P.S. Tindastóll er sem stendur í öðru sæti Pepsi Max deildarinnar. Ég ætla að brosa...

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir