Gagnrýna Umhverfisstofnun fyrir seinagang í bensínmengunarmálinu

Frá Hofsósi. MYND: ÓAB
Frá Hofsósi. MYND: ÓAB

RÚV segir frá því að byggðarráð Skagafjarðar gagnrýni Umhverfisstofnun harðlega fyrir seinagang við rannsókn á bensínmengun á Hofósi. Þó brátt séu liðin tvö ár frá því mikill bensínleki uppgötvaðist úr birgðatanki N1 á Hofsósi, með þeim afleiðingum að fjölskylda handan götunnar varð að flytja úr húsi sínu og veitingastað við hliðina var lokað, er rannsókn enn ekki lokið. „Og ég útiloka ekki að það séu fleiri fasteignir sem hafa lent þarna undir. Og svo við, sveitarfélagið sem eigandi lóða og gatna á svæðinu, við þurfum náttúrulega að gæta okkar hagsmuna einnig,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði.

Í fréttinni segir að í vikunni hafi byggðarráð Skagafjarðar kallað fulltrúa Umhverfisstofnunar á sinn fund til að afla upplýsinga um aðgerðir á Hofsósi, en Sigfús segir þar hafa verið fátt um svör. „En þeir fullvissuðu okkur um að þeir væru með málið í vinnslu og ætluðu að senda fulltrúa á svæðið nú í þessum mánuði. Við höfum ennþá ekki fengið upplýsingar um það í raun og veru hvert umfang og magn mengunar var og hvað á að gera til að bregðast við. Hvernig hreinsunarstarf á að eiga sér stað.“

Sveitarfélagið lét gera sjálfstæða rannsókn á menguninni og Sigfús segir hana hafa leitt í ljós bæði jarðvegsmengun og lyktarmengun upp úr holum. Því verði Umhverfisstofnun tafarlaust að skera úr um nauðsynlegar aðgerðir. „Og þetta er orðinn allt of langur tími sem bæði við og íbúar og fyrirtæki á svæðinu hafa fengið að vera bara í óvissu.“

Heimild: RÚV.is

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir