Geggjaður sigur á Grindvíkingum

Sigtryggur Arnar lendir á varnarmúr Tindastóls og fær pínu flugferð í kaupbæti. MYND: HJALTI ÁRNA
Sigtryggur Arnar lendir á varnarmúr Tindastóls og fær pínu flugferð í kaupbæti. MYND: HJALTI ÁRNA

Tindastóll og Grindavík mættust í Síkinu í gærkvöldi og er óhætt að fullyrða að um fyrirtaks skemmtun hafi verið að ræða. Stólarnir hittu sjálfsagt á einn sinn albesta leik í langan tíma, sóknarleikurinn var lengstum suddalega flottur og ekki skemmdi fyrir að Gerel Simmons var hreinlega unaðslegur. Lið Tindastóls náði góðu forskoti í byrjun annars leikhluta og þrátt fyrir stórleik Sigtryggs Arnars náðu gestirnir ekki að draga á heimamenn sem sigruðu að lokum 106-88.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu að það yrði spilaður blússandi hraður sóknarleikur og boðið til nettrar 3ja stiga skota skemmtunar. Það fór svo að bæði liðin tóku fleiri skot utan 3ja stiga línunnar en innan hennar og nýting beggja liða um 40% sem er aldeilis ágætt. Liðin nýttu sóknir sínar vel til að byrja með og jafnræði var með liðunum, staðan 15-15 þegar tæpar sjö mínútur voru liðnar en þá lokuðu Stólarnir vörninni og Brodnik og Viðar settu sinn hvorn þristinn. Staðan 24-19 að loknum fyrsta leikhluta og það var Pétur sem var allt í öllu fyrstu þrjár mínútur annars leikhluta, gerði átta stig og Stólarnir náðu 13-2 kafla og 16 stiga forystu eftir þrist frá silkimjúkum Hannesi. Grindvíkingar svöruðu með tveimur þristum en Stólarnir náðu vopnum sínum aftur og það virtist fokið í flest skjól Grindvíkinga þegar Helgi Rafn smellti niður þristi við mikinn fögnuð og staðan 48-29. Þetta gladdi greinilega Gerel Simmons sem gerði í kjölfarið níu stig á sömu mínútunni. Hann átti sinn langbesta leik í langan tíma og geystist um allan völl eins og Speedy Gonzales og skildi varnarmenn gestanna eftir í eyðimörkinni. Stundum var ekki annað hægt en að hrista hausinn og hlægja að snildinni. Staðan 57-38 í hálfleik og Simmons kominn með 19 stig.

Grindvíkingar mættu ákafir til leiks í þriðja leikhluta en Stólarnir gáfu lítið eftir. Eftir fjögurra mínútna leik var munurinn þó kominn niður í tólf stig en karfa frá Axel og sex stig frá Pétri stöðvuðu áhlaup gestanna. Það munaði mikið um það í liði Grindvíkinga að Jamal Olasawere var hreinlega ekkert inni í leiknum, vörn Tindastóls lék hann grátt og hann var hreinlega ekki með hausinn rétt stilltan. Hann kvaddi Síkið með fimm villur áður en þriðji leikhluti var úti og hafði þá spilað rúmar 14 mínútur. Þetta leiddi m.a. til þess að Tindastólsmenn rústuðu hinni mikilvægu frákastabaráttu, tóku um 20 fráköstum meira en gestirnir. Jamal fór út af í stöðunni 79-64 en áður en leikhlutinn var úti gerði Simmons fjögur stig og Brodnik setti niður þrist og staðan því 86-64 þegar fjórði leikhluti hófst. Simmons setti strax niður þrist og kláraði í raun leikinn endanlega því nú munaði 25 stigum á liðunum. Ingvi Guðmundsson svaraði með þristi en hann var að hitta vel líkt og Sigtryggur Arnar sem var hreint út sagt frábær í leiknum. Fyrst honum líður svona vel í Síkinu þá ætti hann auðvitað bara að vera hérna. Lítið var skorað næstu mínútur og þegar á leið hófu þjálfararnir að skipta óreyndari leikmönnum inn á. Munurinn yfirleitt um 20 stig og það gladdi áhorfendur í Síkinu þegar Magnús Logi tók sitt fyrsta skot í Dominos-deildinni úr vinstra horninu, boltinn skoppaði á hringnum og snérist svo laglega niður við mikinn fögnuð. Frábær leikur og góður sigur Tindastóls.

Sem fyrr segir var Simmons á eldi í leiknum, gerði 31 stig og sumar körfurnar hreint magnaðar. Hann hefur verið hálf daufur í stigaskorinu í síðustu leikjum en minnti rækilega á sig í gær. Pétur var flottur með 17 stig, Bilic skilaði nokkrum töfrandi teygjanlegum íleggjum og skilaði 16 stigum og Brodnik 15 og átta fráköstum. Helgi Rafn var með sjö stig, sex fráköst og sjö stoðsendingar og er að spila vel. Axel var sömuleiðis góður, með sex stig og fjögur fráköst. Í raun voru allir Stólarnir að skila frábærri vinn, voru á tánum frá fyrstu mínútu. Varnarleikurinn var flottur og gerðu gestirnir aðeins 11 körfur innan 3ja stiga línunnar. Þar fyrir utan fór mikil orka í að stíga út í stórskyttur Grindvíkinga sem sýndu leikni sína þegar þeim gáfust færi. Í liði Grindavíkur var Sigtryggur Arnar með 31 stig og bar hann leik gestanna uppi. Ingvi var sömuleiðis góður með 21 stig en aðrir voru ekki að skila miklu.

Lið Tindastóls er að fyrri umferð Dominos-deildar lokinni í 2.-3. sæti með 16 stig líkt og Keflavík. Efst trónir Jóla-Stjarnan með 18 stig. Næsti leikur Stólanna er þann 6. janúar þegar strákarnir heimsækja Keflavík.

- - - - -

Myndir Hjalta Árna úr leiknum á FB síðu Körfuknattleiksdeildar Tindastóls

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir