Glettur Andrésar Valbergs - Frumraun Inga V. í blaðamennsku á Feyki

Ingi V. Jónasson, sem hefur verið búsettur í Svíþjóð mörg undanfarin ár, starfaði á ritstjórn Feykis 1986-1987 þegar Jón Gauti Jónsson var ritstjóri. Ingi sendi Feyki nokkrar línur um skemmtilega frumraun sína í blaðamennsku. Gefum honum orðið:

,,Jón Gauti kom með töluvert af ferskum hugmyndum varðandi Feyki og þátt blaðsins sem virks miðils. Hann vildi sjá fréttir, umfjöllun og umræðu um nýsköpun í atvinnulífi og menningarlífi, samtímis sem rækta skyldi gamla og góða siði.

Frumraun mín hjá Feyki var umsjón með vísnaþætti sem nefndur var Bragamál vorið 1986. Hér skyldi tekið við tækifærisvísum, mönnum gefast kostur að kveðast á og botna fyrri parta með meiru.

Fyrsti þáttur Bragamála í umsjón Inga V.

Það voru sér í lagi tvær persónur sem til að byrja með voru mjög virkar í að koma efni í Bragamál. Fyrst skal nefna Indíönu sem bjó á Skagfirðingabraut 1. Hún kom gangandi yfir Kirkjutorgið með handskrifaðar vísur og vísuhelminga á pappírsmiðum á skrifstofu Feykis. Hin persónan var hið kunna skáld og listamaður, Skagfirðingur skýr og hreinn - Andrés Valberg. Andrés kom í það minnsta einu sinni á skrifstofu Feykis þegar hann var á ferðinni fyrir norðan. Annars hringdi hann oft og brá sér þá í ýmis gervi. Fyrst hafði Andrés Valberg samband og sendi inn vísubotn. Eins og stundarfjórðungi síðar hringdi hann síðan aftur með breyttum raddhljómi og kynnti sig sem hagyrðinginn Valnastakk og sendi inn vísubotn auk þess að koma með fyrri part til birtingar í næstu Bragamálum.

Þegar næsta blað var komið út, streymdu vísubotnarnir inn. Andrés Valberg kom náttúrulega með góðan botn að fyrriparti Valnastakks auk annarra óþekkra hagyrðinga, sem ég ekki man lengur nöfnin á. Margir þessara ágætu manna voru ákaflega einkennilegir í allri framkomu og raddblæ í síma. Þegar þessir menn höfðu síðan samband dag eftir dag og voru farnir að kveðast á, auk þess sem þeir byrjuðu að botna enn óbirta fyrri parta eftir Valnastakk, varð ég þess fullviss að hér var um einn og sama einstakling að ræða - nefnilega Andrés Valberg!

Á Feykisárunum. Mynd úr Feyki.

Ég var tvítugur þegar þetta var og tók þessa frumraun í blaðmennskunni kannski full alvarlega. Þetta varð til þess að ég veitti einum af leikpersónum Andrésar, hinum nefmælta Stefáni í Hlíð, ákúrur fyrir þennan vitleysisgang. Það leið ekki á löngu áður en Valnastakkur hringdi og varaði mig við nefndum Stefáni í Hlíð og bað mig fyrir alla muni að birta ekkert eftir það auma leirskáld! Andrés Valberg sagði Valnastakk aftur á móti lipran og hnittinn hagyrðing.

Eftir þetta heyrði ég aldrei meir frá Andrési, Stefáni í Hlíð né öðrum þeim tengdum. Valnastakkur einn hélt ótrauður áfram að senda inn efni í Bragamál.“

Áður birst í 15. tbl. Feykis 2021

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir