Gréta styður ekki tillögu vegna formgalla
Sigurjón Þórðarson lagði á sveitastjórnafundi í sveitastjórn Skagafjarðar í gær fram tillögu þar sem sveitastjórn furðar sig á að heilbrigðisráðherra hafi ekki sinnt beiðni sveitastjórnar um fund. Tillaga Sigurjóns var ekki tilbúin með hefðbundnum tveggja sólahringa fyrirvara en var tekin inn með afbrigðum og samþykkt með átta atkvæðum. Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir sat hjá þar sem hún taldi tillöguna ekki hafa komið nógu snemma fram.
Tillaga Sigurjóns og nú sveitastjórnar er svohljóðandi; -Sveitarstjórn Skagafjarðar furðar sig á því að heilbrigðisráðherra hafi ekki enn sinnt beiðni sveitarstjórnar frá 4. október sl. um fund þar sem útskýrðar verða vafasamar forsendur stórfellds og óvægins niðurskurðar á Heilbrigðisstofnuninni á Sauðárkróki sem heimamenn hafa m.a. byggt upp með óeigingjörnu sjálfboðliðastafi og fjárframlögum. Sveitarstjórn fer fram á að ráðherra og 3. þingmaður Norðvestur kjördæmis geri rækilega grein fyrir hvernig réttlæta megi tillögur sem fela í sér að íbúum Sveitarfélagsins Skagafjarðar verði veitt svo þungt högg sem frumvarp til fjárlaga næsta árs ber með sér. Sveitarstjórn Skagafjarðar krefst þess enn og aftur að 30% viðbótarniðurskurður á Heilbrigðisstofnunina á Sauðárkróki verði dregin til baka nú þegar.
Var tillaga Sigurjóns samþykkt með átta atkvæðum. Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir óskaði bókað að hún sæti hjá við afgreiðslu málsins gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun.
-Ástæða þess að fundarboð sveitarstjórnar á að berast sveitarstjórnarfulltrúum tveimur sólarhringum fyrir sveitarstjórnarfundi er til þess að sveitarstjórnarfulltrúar geti kynnt sér mál og undirbúið sig fyrir fundi. Ég tel ekki rétt að vera með uppákomutillögur samþykktar með afbrigðum á sveitarstjórnarfundum.