Hættulegir reiðhjólahrekkir

Margir hafa tekið upp á því að festa hjólaklemmuna með dragbandi. Mynd:facebook/Lögregla höfuðborgarsvæðisins
Margir hafa tekið upp á því að festa hjólaklemmuna með dragbandi. Mynd:facebook/Lögregla höfuðborgarsvæðisins

Því miður hefur borið á því í vor hér á Sauðárkróki að óprúttnir aðilar hafi losað um framdekkin á reiðhjólum barna. Það er stórhættulegt athæfi og getur endað með ósköpum þar sem reiðhjólamaðurinn getur stórslasast við það að fljúga fram fyrir sig á hjólinu ef það er á miklum hraða. Eru hrekkir sem þessir ekki eingöngu bundnir við Skagafjörð og eru dæmi um að börn um allt land hafi stórslasast eftir byltu af þessum sökum.

Móðir drengs á Sauðárkróki sem lenti í þessu í vor segir að hann hafi sloppið með skrekkinn. „Hann marðist á síðu og hendi og var heppinn að hafa ekki verið á meiri hraða, þá hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum. Framdekkið og gjörðin eyðilögðust og núna höfum við búið um hjólið á þann hátt að ekki er hægt að losa dekkið nema klippa á það,“ segir móðirin en þau festu klemmuna á framdekkinu við stöngina með dragbandi.

Mikill fjöldi er af reiðhjólum við Árskóla á Sauðárkróki og á vorin geta verið þar allt upp í 140 hjól. „Þetta er því miður ekki nýr hrekkur og kemur það upp reglulega að einhverjir ætla að vera voða fyndnir og hrekkja samnemendur sína en gera sér ekki grein fyrir hverjar afleiðingarnar geta verið,“ segir Óskar Björnsson, skólastjóri Árskóla. Að hans sögn kemur þetta því miður upp annað slagið og þegar það gerist fari skólinn í gang með fræðslu inn í bekkina um hætturnar sem fylgja hrekkjum af þessu tagi. Það virðist bera árangur því yfirleitt dregur úr þessu eftir það. Hann segir mikilvægt að fræða alla nemendur um hætturnar sem fylgja þessu og um leið virkja alla í vaktinni með hjólunum.

Feykir vill minna alla foreldra á mikilvægi þess að fylgjast með ástandi á reiðhjólum barnanna, minna þau á að yfirfara hjól sín áður en þau leggja af stað. Jafnframt fræða þau um alvarleika hrekkja af þessu tagi.  /SHV

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir