Hús frítímans fær styrki frá Evrópu unga fólksins
Valnefnd Evrópu unga fólksins, EUF, ákvað á fundi sínum í gær að styrkja verkefnið "Peace4life" á vegum Húss frítímans í Skagafirði . Verkefnið sem stjórnað er af Ivano Tasin forstöðumanni Húss frítímans, verður á Íslandi í ágúst n.k. þar sem 40 unglingar frá fimm Evrópulöndum koma hingað til lands og vinna saman.
Markmið verkefnisins er að þróa tilfinningu unglinga gagnvart stríði og friði í heiminum í gegnum list. Hópurinn verður viku í Skagafirði þar sem leyst verða ýmis verkefni í listasmiðjum og útivist. Þá verða menningasamskipti aukin og hópkennd efld, auk þess sem tími unglinganna fer í að undirbúa sýningu sem hópurinn stendur fyrir á Menningarnótt í Reykjavík 22.ágúst.
Auk þessa verkefnis hefur Hús frítímans, Frístundasvið, fengið styrk til að vera þátttakandi í verkefninu "Local Accents-global voice" sem fram fer í Skotlandi í júlí í sumar. Þangað fara 5 unglingar auk leiðbeinanda til þátttöku ásamt jafnstórum hópum frá 3 öðrum Evrópuríkjum. Verkefnið snýst um útivist og evrópska vakningu í umhverfismálum.
Hús frítímans fékk auk þess samþykkta umsókn um að senda frá sér og taka á móti sjálfboðaliðum innan verkefnisins Evrópa unga fólksins, Youth in action. Þeir sem hafa áhuga á að gerast sjálfboðaliðar í Evrópu skulu snúa sér til starfsmanna Húss frítímans eða senda fyrirspurn á husfritimans@skagafjordur.is