Í minningu Eyþórs Stefánssonar

Síðastliðið sunnudagskvöld var í Sauðárkrókskirkju samkoma þar sem minnst var tónskáldsins og heiðursborgarans Eyþórs Stefánssonar í tali og tónum en þann 23. janúar voru 110 ár liðin frá fæðingu Eyþórs. Kirkjan var vel sótt af þessu tilefni og fóru gestir sælir út í hlýtt janúarkvöld að samkomunni afstaðinni.

Það var miður að óperusöngvarinn Gissur Páll Gissurarson forfallaðist á síðustu stundu sökum veikinda. Hringd var neyðarhringing í Óskar Pétursson frá Álftagerði og þurfti sá snillingur ekki að hugsa sig um, heldur hljóp í skarðið með það sama, og fór á miklum kostum um kvöldið eins og hans var von og vísa.

Hulda Jónsdóttir flutti snoturt erindi um Eyþór og þá söng Kirkjukór Sauðárkrókskirkju lög eftir hann. Óskar söng sömuleiðis dúett með Sigurdrífu Jónatansdóttur og fluttu þau lagið Á vegamótum.

Meðal gesta í kirkjunni var barnabarn Eyþórs heitins, Eyþór Einarsson og Ása kona hans sem mættu galvösk frá Reykjavík, og þá kom skyldfólk frá Akureyri, Ingvi Rafn Jóhannsson ásamt dætrum sínum Svanfríði og Króksarans Maríu Bjarkar.

Kynnar á samkomunni voru séra Sigríður Gunnarsdóttir og Brynjar Pálsson formaður sóknarnefndar og færðu þau fyrrum formanni sóknarnefndar Sauðárkrókskirkju, Jóni Karlssyni, blómvönd í tilefni af því að forseti Íslands nældi nýverið í hann Fálkaorðu.

Fleiri fréttir