ÍR-ingar mæta á Krókinn í kvöld
Tindastóll tekur á móti ÍR-ingum í IEX-deildinni í kvöld og hefst leikurinn kl. 19.15. Þarna er um gríðarlega mikilvægan leika að ræða gegn spræku liði ÍR-inga sem verið hefur á uppleið í síðustu leikjum. Stuðningsmannafundur kl. 18.30. ÍR situr nú í 8. sæti með 10 stig eftir sigur á KFÍ í síðasta leik, sæti neðar en Tindastóll sem hefur 12 stig. ÍR burstaði Tindastól með 24 stiga mun í fyrri leik liðanna í Reykjavík, 97-73.
Á Tindastóll.is segir að fyrir liði ÍR fari þrír erlendir leikmenn, þeir Nemanja Sovic sem skorað hefur 20.1 stig og tekið 6.2 fráköst, Kelly Biedler 21.4 stig og 12.1 frákast og nýjasti liðsmaður ÍR-inga James Bartolotta, sem skorað hefur 24.7 stig og er mjög góð skytta, er m.a. að hitta úr 45% þriggja stiga skota sinna. Þá er Sveinbjörn Claessen kominn á skrið á nýjan leik eftir meiðsli. Gamla kempan Eiríkur Önundarson kemur síðan með óhemju mikla reynslu inn í liðið og þeir Hjalti Friðriksson og Níels Dungal auka sannarlega breidd þeirra Breiðhyltinga.
Þessa dagana er hver leikur Tindastólsmanna úrslitaleikur um stöðu í deildinni og náist sigur gegn ÍR-ingum, verður liðið komið í baráttuna um 5. sætið í deildinni. Stjörnumenn eru í 5. sætinu með 14 stig, en þeir eiga erfiðan útileik gegn Njarðvíkingum í þessari umferð og Haukar í 6. sæti með 12 stig eins og Tindastóll, en þeir eiga sömuleiðis erfiðan útileik fyrir höndum í þessari umferð gegn Grindvíkingum.
Kiki er meiddur á hné og hefur hvílt í vikunni og óvíst er hversu mikinn þátt hann kann að taka í leiknum. Aðrir leikmenn eiga að vera í góðu standi og þurfa að stíga upp, verði Kiki lítið eða ekkert með.
Það verða Tengill ehf og Sparisjóðurinn sem keppa í Stinger-skotleik í hálfleik.
Stuðningsmannafundur verður fyrir leikinn kl. 18.30 í matsal Árskóla - gengið inn um aðalinngang íþróttahússins - og þar verður hægt að fá sér súpu fyrir 500 krónur. Borce Ilievski aðalþjálfari Tindastóls og Kári Marísson aðstoðarþjálfari munu fara yfir fyrirhugað leikskipulag á fundinum og svara fyrirspurnum. Allir stuðningsmenn eru velkomnir. Þessar samverustundir hafa verið skemmtilegar og oft spunnist fjörugar og áhugaverðar umræður um körfuboltann og frammistöðu liðsins.
/Tindastóll.is