Jarðskjálfti austan við Grímsey
Rétt um klukkan eitt í nótt varð sterkur jarðskjálfti austan við Grímsey. Samkvæmt bráðabirgðamati jarðeðlisfræðings á vakt á Veðurstofu Íslands var skjálftinn af styrknum 5,4 og átti upptök sín um 14 km fyrir austan Grímsey. Talsverð eftirskjálftavirkni hefur verið á svæðinu. Samkvæmt vef almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra má búast við að eftirskjálftavirkni geti staðið í nokkurn tíma, jafnvel í einhverja daga eða vikur. Ekki er hægt að útiloka að skjálftar af svipaðri stærð komi í kjölfar skjálftans í nótt.
Tilkynningar um skjálftann hafa borist víða af Norðurlandi, allt frá Sauðárkróki í vestri og austur á Raufarhöfn. Tilkynningar hafa einnig borist allt sunnan úr Mývatnssveit. Ekki hafa borist tilkynningar um tjón.
