Jólamót Molduxa hafið – Árni Stef fékk Samfélagsviðurkenningu

Hið árlega Jólamót Molduxa hófst klukkan 11 í morgun í Síkinu á Sauðárkróki og eins og vanalega er vel mætt. Alls keppa 18 lið eða alls um 150 manns af báðum kynjum og margir brottfluttir Skagfirðingar þar á meðal. Íþróttafrömuðurinn Árni Stefánsson var heiðraður í upphafi móts að honum fjarstöddum.

Fjöldi fólks hefur einnig lagt leið sína í áhorfendastúkuna og fylgist með af áhuga svo búast má við að hátt í 300 manns komi saman á þetta óformlega ættarmót sem er ómissandi þáttur hjá mörgum á jólunum en mótið er það 26. í röðinni.

Árið 2015 var fyrsta samfélagsviðurkenning Molduxa veitt og hefur sá siður haldist síðan. Í ár var sá fimmti heiðraður, Árni Stefánsson íþróttakennari og fv. skokkhópsstjórnandi. Hér fyrir neðan má sjá umsögn um Árna í setningarræðu mótsstjóra.

"Góðir gestir ... velkomin í Síkið!
Við hefjum okkar árlega jólamót á því að upplýsa hver hefur hlotið hin eftirsóttu  Samfélagsviðurkenningu Molduxa en þau hafa verið veitt frá árinu 2015 þegar Skúli Jónsson fyrstur manna tók við þeim. Árið eftir fékk þau Rannveig Helgadóttir Kári Marísson 2017 og Hrafnhildur Pétursdóttir í fyrra.

Nú er komið að einum miklum frumkvöðli í íþróttalífi héraðsins.
Hann er fæddur og uppalinn á Akureyri og uppeldisfélagið KA. Hann kom á Krókinn árið 1982 til að taka við knattspyrnuþjálfun hjá Tindastól og sinnti því til ársins 1982 og svo aftur sumarið ´91. Já það eru nú líklega flestir farnir að kveikja við erum að tala um Árna Stef.

Það kannast allir við Árna enda viðloðandi hvers kyns hreyfingu og útivist, sem íþróttakennara í Fjölbraut og forystumanns í Skokkhópnum landsfræga. 
Það þekkja það margir að Árni stóð í markinu hjá mörgum liðum enda segir markmannsstöðuna hafa alla tíð verið hans staða á vellinum enda sú langskemmtilegasta!

Árni hóf ferilinn með uppeldisfélaginu KA en lék einnig með ÍBA og Fram áður en hann yfirgaf landsteinana og hélt til Svíþjóðar en þar lék hann með Jönköping Södra og Lanskrona BOIS.

Þá var hann valinn í Landslið Íslands og á þar 15 A-landsleiki og 10 leiki með unglingalandsliðinu, en í þá daga var bara eitt unglingalandslið. 
Aðspurður um minnisstæða leiki nefnir hann 0-0 leik á móti Danmörku og 0-1 leik við Rússa í Moskvu.

Hvort sem maður á að trúa á tilviljanir eða ekki segir Árni þannig hafa verið með komu sína á Krókinn. Hann sendi bréf til vinar síns og skólafélaga, enda fyrir tíma gemsanna, til að forvitnast um stöðuna í atvinnumálum og eitt leiddi af öðru. Eins og áður segir kom hann til að þjálfa Tindastól og ekki var verra að Herdís, betri helmingurinn, fékk vinnu á Sjúkrahúsinu og tel ég það hafa ráðið úrslitum. Húrra fyrir Herdísi! En Árni stóð í marki Stólanna til ársins 1985 þegar Gísli Sig. tók alfarið við þeirri stöðu.

Eins og allir ættu að vita er Árni íþróttakennari í Fjölbraut en haustið 1973 byrjaði hann kennslu í Breiðholtsskóla. Þremur árum síðar eða 1976 útskrifaðist hann frá ÍKÍ á Laugarvatni  eftir tveggja ára nám og hefur starfað sem íþróttakennari síðan þá.

Árni er ekki síður þekktur fyrir að halda utan um Skokkhópinn sem varð til 1996 þegar nokkrir íþróttakennarar hér á Krók komu að stofnun hans. Þau höfðu öll áhuga á hreyfingu í einu eða öðru formi og fundu fyrir áhuga á að boðið yrði uppá skokk- og gönguhópi í sveitarfélaginu.

Nú hafa orðið tímamót þar sem Árni hefur gefið út að hann væri hættur að vera í forsvari fyrir Skokkhópinn, og segir hann ástæðuna fyrst og fremst þannig að hann telji að nú sé komin tími á að yngri og ferskari einstaklingur rífi upp áhuga á útivist og hreyfingu.

Því miður gat Árni ekki verið með okkur í dag þar sem hann ver jólum og áramótum á Tenerife með Heddý sinni. En þessum skilaboðum Árna lofaði ég að koma á framfæri:
„Ég vil hvetja alla til að stunda hreyfingu í einhverju formi og svo vil ég þakka öllum sem ég hef unnið með fyrir frábært samstarf og að hafa haft þolinmæði fyrir mér í öll þessi ár.“

Góðir gestir, um leið og ég segi þetta 26. Jólamót Molduxa sett bið ég ykkur um að klappa vel fyrir Árna Stef og ekki síður Herdísi konu hans sem stutt hefur við bakið á honum öll þessi ár.
Þau lengi lifi!"

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir